Miðvikudagur 20.10.2010 - 22:32 - FB ummæli ()

Góð kynning hjá stjórnarskrárfélaginu

Í kvöld leit ég við á ágætum fundi stjórnarskrárfélagsins; ég gat ekki setið fundinn allan vegna hins skamma fyrirvara frá því að ég frétti af honum. Í máli formanns félagsins kom raunar fram að dregið hefði verið úr kynningu fundarins og boðum á hann í kjölfar frétta af miklum fjölda framboða – sem sagt var af hálfu fulltrúa stjórnvalda að yrðu líklega um eða yfir 500 talsins.

Það fannst mér ekki mjög lýðræðisleg afstaða – en ég vænti þess að fleiri kynningarfundir verði haldnir og fagna frumkvæði félagsins í þessu efni.

Nýtt, vel kynnt og lýðræðislegt kosningakerfi

Fundurinn var þríþættur:

  1. Formleg nýmæli við persónukjör. Fulltrúi stjórnvalda kynnti formlegt fyrirkomulag framboða, fyrirhugaða kynningu stjórnvalda á frambjóðendum og hvernig staðið yrði að kosningum 27. nóvember nk.; þrátt fyrir of skamman aðdraganda að hans mati, takmarkaða reynslu og mikinn fjölda frambjóðenda taldi hann unnt að stuðla að því að persónukjör til stjórnlagaþings gengi vel með því að skýra málin vel fyrir kjósendum. Hver frambjóðandi fær fjórar tölur – sem kjósendur eiga að skrifa á kjörseðil – og er þeim tölum, sem mest ruglingshætta er við, sleppt. Leitast verður við að kynna þetta á sem fjölbreyttastan og bestan hátt í því skyni að kjósendur skilji að um sé að ræða einfalda og lýðræðislega kosningu – enda getur kosning til stjórnlagaþings orðið ísbrjótur fyrir meira lýðræði í formi frekara persónukjörs til lýðræðisstofnana landsins.
  2. Lýðræðislegt val þannig að sem flest atkvæði nýtist. Reyndur ráðgjafi í kosningafyrirkomulagi skýrði nýmælið við fyrirkomulag persónukjörs, sem mun vera hið fyrsta hérlendis en er 80 ára góð reynsla af á Írlandi. Fyrirkomulagið er kennt við eitt færanlegt atkvæði (e. single transferable vote). Í stuttu máli hefur hver kjósandi eitt atkvæði og 24 varaatkvæði þannig að hann getur óhræddur valið þá frambjóðendur (allt að 25) sem honum hugnast best – án þess að óttast að atkvæðið nýtist illa. Kjósendur geta bæði valið vinsælan og vænlegan frambjóðanda án þess að atkvæði hans ónýtist við að sá fái alltof mörg atkvæði – því að ónýtt atkvæði „ofurframbjóðenda“ færast þá á næsta kost, og svo koll af kolli. Kjósandi getur einnig tekið „áhættuna“ af því að velja lítt þekktan frambjóðanda (t.d. kunningja eða ættingja) sem fyrirfram er ekki mjög líklegur til þess að ná kjöri – enda færast ónýtt atkvæði þeirra, sem ekki komast í toppbaráttuna, sömuleiðis til næsta vals og svo næsta þar til atkvæði nýtist eða kjörseðill með allt að 25 númerum er tæmdur.
  3. Kynning af hálfu frambjóðenda. Að lokum var komið að lengsta liðnum þar sem þeir rúmlega 40 frambjóðendur (af alls um 500), sem frétt höfðu tímanlega af kynningarfundi stjórnarskrárfélagsins og höfðu tækifæri og hug á, gátu kynnt sig með 1-2ja mínútna ræðu. Ég hlustaði á nokkrar ágætar ræður og leist vel á; suma frambjóðendur þekki ég – ýmist persónulega eða af opinberum vettvangi og vil gjarnan kynna mér betur þá, sem ég þekki ekki; fram kom að kynningarnar yrðu settar á vefinn enda var fundurinn tekinn upp á myndband. Reyndar gæti ég hugsað mér að birta síðar lista yfir þá frambjóðendur sem mér hugnast – og þá væntanlega með rökstuðningi hvers vegna mér líst vel á þá.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur