Fimmtudagur 21.10.2010 - 21:20 - FB ummæli ()

Mun íhaldið „boykotta“ stjórnlagaþing?

Um skeið hef ég óttast að íhaldsöfl muni hunsa stjórnlagaþing – bæði við framboð, kosningar og þegar að því kemur að virða niðurstöðuna og hrinda henni í framkvæmd. Ég hef í raun óttast þetta innst inni frá upphafi er ég lagði fyrst til að boðað yrði til sjálfstæðs stjórnlagaþings í nóvember 2008 – eins og lesa má um hér.

Þessi grunur ágerðist er ég varð var við viðbrögð íhaldsafla – bæði í stjórnmálakerfinu og annars staðar í valdakerfinu eða „elítunni“ – framan af ári 2009 eins og ég hef lýst. Í upphafi var stundum um að ræða misskilning á hugmyndinni, hroka um að hún gengi ekki upp þar eð hún væri ný (eða of gömul eða of framandi), svo vantrú á málinu – og loks andstöðu þegar íhaldsöflin sáu að bæði var málið gerlegt og rík krafa um það að mati grasrótarinnar; lengi hefur nefnilega verið þörf á umbótum og væntingar um þær meðal borgara landsins.

Andstaða gegn stjórnlagaumbótum náði hámarki (a.m.k. hingað til) með málþófi Sjálfstæðisflokksins fyrir alþingiskosningar vorið 2009 – sem gerði út um sjálfstætt stjórnlagaþing (að sinni) sem ég lagði til í upphafi og hef samið eða tekið þátt í að semja tvö frumvörp um.

Sniðganga?

Nú verð ég var við tvenns konar strauma.

Annars vegar virðist mér af óljósum og tilviljanakenndum fregnum af frambjóðendum (áður en formlega er staðfest hverjir séu í kjöri og með þeim fyrirvara) að færri frambjóðendur (og áhugamenn) séu en vænta mætti miðað við samsetningu og kosningahegðun þjóðarinnar úr hópi hægrimanna, íhaldsfólks og frjálshyggjumanna. Það finnst mér afar miður – bæði af lýðræðisástæðum og af því að ég gæti beinlínis hugsað mér að styðja suma hugsuði af frjálshyggju- og jafnvel íhaldsvæng vegna þeirrar tæru og oft samkvæmu afstöðu sem þeir hafa; stjórnarskráin á enda ekki – hvorki að mínu mati né samkvæmt flestum stjórnspekingum – að meitla í stein hvers konar samfélag eða efnahag við viljum hafa næstu áratugi; stjórnarskráin felur í sér leikreglur um hvernig (og jafnvel hvort og hversu mikið) samfélaginu skuli stjórnað – umferðarreglur:

Stjórnarskráin á ekki að ráða því hvert menn aka – heldur hvernig menn aka í umferðinni.

Skipulögð andstaða?

Hins vegar sýnist mér undanfarið að grunur minn sé staðfestur með beinum heimildum – úr ýmsum áttum. Ég get auðvitað ekki gert athugasemdir við að einstakir kjósendur – hægrimenn eða aðrir – sýni stjórnlagaþingi áhugaleysi eða hafi ekki trú á því sem fyrirbæri, samsetningu þess eða að eitthvað gagnlegt komi út úr því.

Því miður virðast ýmist teikn á lofti um að íhaldsöfl hafi formlega sem óformlega – jafnvel skipulega – leitast við að draga úr framboði á stjórnlagaþing til þess að geta síðar dregið samsetningu þess, vilja og niðurstöðu í efa. Þá er þegar greinilegt að þetta nýmæli – sem er lögmætt og lýðræðislegt (þó að sjálfstætt stjórnlagaþing eins og ég lagði til í upphafi hafi ekki orðið ofan á) – er talað niður af ýmsum hægriöflum, forystufólki sem fjölmiðlum. Það sem ég óttast mest er að sömu öfl sniðgangi (e. boycot) beinlínis kosninguna og vefengi svo í kjölfarið niðurstöðuna – hver sem hún verður!

Ég hef ekki beinar heimildir fyrir þessu en viðra hér áhyggjur mínar. Vonandi kemur í ljós þegar listi yfir frambjóðendur verður birtur – og svo í lýðræðislegu ferli í kjölfarið – að þetta séu óþarfa áhyggjur.

Allir taki þátt, virði ferlið – og niðurstöðuna

Því vil ég skora á alla landsmenn og alla aðila að taka þátt í stjórnlagaumbótum:

  • með því að taka þátt í kynningu og umræðum,
  • nýta kosningarétt sinn (of seint er nú að bjóða sig fram),
  • taka afstöðu til umræðu á stjórnlagaþingi og ræða um – styðja eða gagnrýna – einstök atriði eða mál og
  • virða niðurstöður þess í þjóðaratkvæðagreiðslu og við afgreiðslu Alþingis.

Aðeins í einræðisríkjum og þar, sem borgarastyrjöld ríkir eða önnur grundvallarólga er fyrir hendi, er sæmandi og boðlegt lýðræðisöflum að hunsa lýðræðislega umræðu, lýðræðislegt val og lýðræðislega niðurstöðu.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur