Mánudagur 25.10.2010 - 16:30 - FB ummæli ()

Sérstakan stjórnlagadómstól?

Í beinu framhaldi af síðasta pistli stóðu eftir þrjár spurningar:

  • Þurfum við fleiri (almenna) dómstóla, svo sem millidómstig, og þarf stjórnarskrárbreytingu til þess?
  • Þurfum við þurfum sérstakan stjórnlagadómstól?
  • Krefst stofnun stjórnlagadómstóls eða tilvist hans stjórnaskrárbreytingar?

Að því er varðar spurninguna um hvort stofna eigi millidómstig meðal hinna almennu dómstóla, þ.e. á milli héraðsdómstóla og Hæstaréttar, er ljóst að hún hefur ekki sömu stjórnskipulegu vandamál varðandi sjálfstæði. Því er ekki varhugavert að unnt sé að fjölga dómsstigum í almenna dómskerfinu án stjórnarskrárbreytingar.

Hvort rétt er að stofna millidómstig – og þá hvernig – er því eiginlega ekki stjórnskipuleg spurning; úr því að hún er komin á dagskrá er rétt að svara því að millidómstig ætti varla beinlínis að vera stjórnarskrárbundið (frekar en nú).

Vantar millidómstig – nú?

Stofnun millidómstigs – á milli héraðsdóms og Hæstaréttar, og þá með lögum – er nokkuð sem ég hef hallast að lengi; nú er e.t.v. erfitt vegna fjárhagsaðstæðna að gera það – en að sama skapi mikilvægt eða æskilegt af fjórum ástæðum, sumum tímabundnum en öðrum varanlegum:

  1. Vegna fjölda dómsmála nú, og fyrirsjáanlega – tímabundið vonandi – næstu árin.
  2. Vegna mannréttindaákvæða um að í sakamálum verði dómarar á áfrýjunarstigi að meta vitnisburð beint en Hæstiréttur hefur alla tíð skirrst við að nýta lagaheimild til slíks.
  3. Vegna enn tímabundnara ástands í ljósi þess að rúmur helmingur hæstaréttardómara verður næstu mánuði eða misseri nokkuð upptekinn við þátttöku í máli sem Alþingi hefur ákveðið að höfðað skuli gegn fyrrverandi forsætisráðherra fyrir Landsdómi.
  4. Vegna tillögu hér að neðan varðandi aukið hlutverk Hæstaréttar sem stjórnlagadómstóls.

Ég hallast enn að því að koma eigi á millidómstigi sem þannig yrði almennt áfrýjunarstig landsins yfir héraðsdómstólum – og að aðeins fá mál færu á þriðja dómstigið, til Hæstaréttar, eftir sérstökum lögbundnum skilyrðum.

Raunar tel ég koma til álita að millidómstigið – eða önnur starfsstöð þess – eigi að vera á Akureyri en það er önnur saga.

Ég lýsi eftir góðu nafni á þennan dómstól.

Þarf sérstakan stjórnlagadómstól?

Af þessu öllu, sbr. fyrri pistla, leiði ég svarið við fjórðu spurningunni um hvort við þurfum sérstakan stjórnlagadómstól. Ég held að hæpið verði að telja samkvæmt öllu framangreindu að þörf sé á sérstökum stjórnlagadómstól – eða jafnvel skynsamlegt að stofna slíkan dómstól, sbr. einkum ítarlega röksemdafærslu um sérdómstóla varðandi spurningar 1 og 2 í fyrri pistli.

Á hinn bóginn er almennt meðal stjórnlagafræðinga talin þörf á að einhver sinni því hlutverki sem stjórnlagadómstólar sinna víða í stærri löndum, svo sem í Frakklandi og Þýskalandi. Það gæti t.d. verið að úrskurða

  • fyrirfram um stjórnskipulega heimild til ákveðinna ráðstafana, t.d. að leggja fram tiltekið lagafrumvarp, eða
  • um stjórnskipulegt gildi settra laga án þess að reynt hafi á það í tilteknu máli – því þá er skaðinn oft skeður.

Ég hefði því talið að réttast væri að bæta við – helst í stjórnarskrá – heimild til þess að skjóta slíkum og sambærilegum, e.t.v. tilteknum, málum beint til annað hvort

  • Hæstaréttar, t.d. fullskipaðs (9 dómarar), eða
  • sérstaks afbrigðis af útvíkkuðum Hæstarétti að viðbættum einhverjum sérfræðingum á sviði stjórnlagafræði (svipað og Landsdómur er samsettur af hæstaréttardómurum, dómsforseta, prófessor og þingkjörnum “sérhæfðum” dómurum).

Viðbótarrök má einnig – með vísan til fyrri pistils um sérdómstóla og afmörkun þeirra gagnvart almennum dómstólum – tilfæra í síðara tilvikinu því að ella yrði oft örðugt að greina á milli lögsögu hvors um sig, Hæstaréttar og sérstaks stjórnlagadómstóls.

Reynsla undanfarinna ára hið minnsta hefur sýnt þörfina á stjórnlagadómstóli – sérstökum eða með útvíkkun eins og hér er lagt til; dæmin sanna þörfina – eins og ég get rakið ef óskað er eftir í athugasemdum.

Þarf stjórnlagadómstóll að byggjast á stjórnarskrá?

Svarið við fimmtu spurningunni um hvort stofnun stjórnlagadómstóls eða tilvist krefjist stjórnarskrárbreytingar er afdráttarlaust jákvætt – með eftirfarandi rökum.

Þar sem almennir dómstólar – Hæstiréttur og nú héraðsdómstólar – hafa ekki aðeins úrskurðarvald um gildi stjórnvaldsákvarðana, sbr. 60. gr. stjskr., heldur einnig a.m.k. frá 1943 samkvæmt skýrri dómvenju einnig endurskoðunarvald um stjórnskipulegt gildi laga tel ég varhugavert að það vald verði tekið af þeim með lögum og falið sérstökum stjórnlagadómstóli sem starfa myndi þar til slíkum lögum yrði breytt eða þau afnumin. Þá tel ég andstætt eðli hugmyndarinnar um stjórnlagadómstól, sem dæma eigi um stjórnskipulegan ágreining – þ.m.t. gildi laga, starfi á grundvelli laga sem löggjafinn getur afnumið.

Því tel ég augljóst að stjórnarskrárbreytingu þurfi til þess að koma á stjórnlagadómstóli – hvort sem hann á að taka við hlutverki almennra dómstóla í þessu efni eða aðeins að fást við ný verkefni, t.d. að kveða upp forúrskurði um gildi laga án þess að reynt hafi á þau eða heimild til þess að leggja frumvörp fyrir löggjafann.

Félagslegu réttindin betur skilgreind

Við þetta má bæta að ég held að minna þurfi að laga til í hinu fyrstnefnda, sbr. fyrri pistil, þ.e. hlutverki dómstóla og mannréttindavörn borgaranna – en vil þó ekki útiloka að þess þurfi að einhverju leyti enda á fjölbreyttur hópur borgara vonandi eftir að tjá rökstudda skoðun sína á því efni.

Það sem helst þarf þó að mínu mati að laga er frekari skýring á inntaki félagslegra réttinda, sbr. fyrri pistil um félagsleg réttindi, og e.t.v. skylt ákvæði um stjórnarskrárskylt samráð og þörf á svipuðu ákvæði.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur