Mánudagur 25.10.2010 - 01:29 - FB ummæli ()

Hvað með sérdómstóla?

Í tveimur síðustu færslum mínum í gær og fyrradag rakti ég og greindi þau fjórtán ákvæði stjórnarskrárinnnar, þar sem eitthvað er minnst á dómsvald, dómara, dómstóla eða dóma, greindi þau.

Mikið um hlutverk – lítið um sjálfstæði

Ég dró einkum þær ályktanir

  • að töluvert væri í stjórnarskránni kveðið á um hlutverk dómsvalds og réttindi borgaranna (einkum eftir breytingar á 120 ára gömlum mannréttindakafla 1995) en
  • lítið um væri í stjórnarskránni sem stuðlaði að sjálfstæði þeirra og enn síður ákvæði um skipulag dómstóla.

Gott að greina – en þarf að breyta?

En það er ekki nóg að greina gildandi stjórnarskrárákvæði; í aðdraganda stjórnlagaþings er mikilvægt að byggja á þekkingu og greiningu um hvað við höfum, þ.e. til þess að meta hvort – og þá hverju – þarf að breyta.

Með vísan til framangreinds vil ég leitast við að svara eftirfarandi spurningum úr síðasta pistli (tveimur fyrri nú – og þremur síðari í næsta pistli):

  1. Á stjórnarskráin á að kveða meira á um skipulag dómstóla?
  2. Á að auka stjórnarskrárvarið sjálfstæði handhafa dómsvalds?
  3. Þurfum við fleiri (almenna) dómstóla, svo sem millidómstig og þarf stjórnarskrárbreytingu til þess?
  4. Þurfum við þurfum sérstakan stjórnlagadómstól?
  5. Krefst stofnun stjórnlagadómstóls eða tilvist hans stjórnarskrárbreytingar?

Stjórnarskráin styrki sjálfstæði dómstóla

Álitamál er hvort stjórnarskrárbinda á beinlínis heiti dómstóla, annarra en Hæstaréttar, og hlutverk þeirra – og þá væntanlega til áratuga ef ekki lengur.

Hvað sem því líður tel ég heppilegt að kveða heldur meira á um skipulag dómstóla en nú er, sbr. fyrri pistil. Rökin fyrir því eru eftirfarandi; hef ég hér hliðsjón af “barnalærdómi” mínum úr dönskum stjórnskipunarrétti og réttarfari (sem fjallar um málsmeðferð í réttarkerfinu).

Í Danmörku eru nýir sérdómstólar bannaðir

Í Danmörku er ekki aðeins talið mikilvægt að dómstólar séu að mestu leyti svonefndir almennir dómstólar – heldur bannar danska stjórnarskráin frá 1953 beinlínis að settir séu á fót sérdómstólar með dómsvaldi.

Í hugtökunum „almennir dómstólar“ og „sérdómstólar“ felst að almennir dómstólar – hér: héraðsdómstólar og Hæstiréttur – fara með öll mál nema þau sem sérstaklega eru falin sérdómstólum á borð við Landsdóm, sem dæmir um ráðherraábyrgð, og Félagsdóm, sem dæmir um vinnumarkaðsmál; því fleiri sem þeir eru er reyndar erfiðara – jafnvel fyrir reynda lögmenn – að meta hvar mál eigi (helst) heima.

Sérdómstólar minnka sjálfstæði dómskerfis

Ástæða þessa banns við nýjum sérdómstólum í dönsku stjórnarskránni (sem er vel að merkja 57 ára) er fyrst og fremst þörf á sjálfstæðum dómstólum; það segir sig sjálft að ef sífellt er verið – eða aðeins unnt samkvæmt stjórnarskránni hvenær sem er – að stofna nýja og nýja sérdómstóla og taka málefni þeirra þar með undan hinum almennu dómstólum þá er sjálfstæði almennu dómstólanna skert. Af heimild til þess að stofna sérdómstól leiðir væntanlega einnig að mögulegt er að afnema sérdómstóla og ýmist stofna nýja og breytta eða fela málefni þeirra almennu dómstólunum að nýju. Slíkt fyrirkomulag, sem ríkir hérlendis fræðilega – en ekki í raun undanfarna áratugi, er því til þess fallið að draga a.m.k. úr trú á sjálfstæði dómstóla.

Ýmislegt fleira í réttarþróun undanfarinna 2ja áratuga hérlendis (og að jafnaði áður í Danmörku) svo sem bann við að dómarar sinni einnig ákæruvaldi og takmörk við því að dómarafulltrúar eða settir dómarar sinni sjálfstæðum dómstörfum er liður í sömu tilhneigingu – að auka (trú á) sjálfstæði dómstóla.

Ýmiss konar sérdómstólar áður og annars staðar

Þótt hér sé ekki beinlínis bannað að stofna sérdómstóla er sama tilhneiging hér í ríkisrétti þannig fremur virðist amast við nýjum sérdómstólum – sem áður voru algengari þar sem hérlendi, þ.e. í takt við tíðarandann eða sérstök (tímabundin) vandamál. T.d. var hér um skeið sérstakur sakadómur í ávana- og fíkniefnamálum – í kjölfar þess að slíkum málum fór fjölgandi á 8. áratug síðustu aldar; nú eru slík mál í höndum héraðsdómstóla (sem frá 1992 fara raunar bæði með sakamál, sem sakadómur gerði áður, og einkamál, sem svonefnt bæjarþing fjallaði lengi um áður). Víða um lönd eru til sérstakir unglingadómstólar en hér eru refsimál 15-18 ára dæmd við almenna dómstóla. Í Danmörku hefur lengi starfað (eins og hér var á árum áður) sérstakur Sjó- og verslunarréttur en hér eru þau dæmd við almenna dómstóla.

Sérhæfingu má ná með öðrum hætti

Segja má einnig að nauðsynlegri sérhæfingu sé náð eða megi ná með fernum hætti – ef spornað er (frekar) við sérdómstólum:

  1. Með því að dómarar hafi sem dýpsta og víðtækasta reynslu, bæði með því að reyndir dómarar séu skipaðir, þeir komi sem víðast að, endurmenntun þeirra sé sem mest og að gott jafnvægi sé milli sérhæfingar í reynslu þeirra og menntun annars vegar og innsýn þeirra í aðra málaflokka hins vegar.
  2. Með því að velja dómara í hvert mál að einhverju leyti – en einkum eftir því hvaða málaflokkur á í hlut – miðað við þekkingu og reynslu sem dómari hefur.
  3. Með því að kveða til sérfróða meðdómendur sem oftast í sérstök, stór og efið mál.
  4. Með því að treysta í enn ríkari mæli á sérhæfingu sakflytjenda, þ.e. lögmanna aðila, þ.m.t. verjenda, og handhafa ákæruvalds.

Okkar tveir sérdómstólar eldgamlir

Þörf á sérhæfingu má því leysa með öðrum hætti – eins og ofangreind fjögur atriði sýna og neðangreind tvö dæmi sanna. Þá er ljóst að í litlu landi er hæpið að fjölga eiginlegum dómstólum nema skýr rök liggi til þess – og þarf þá ekki kreppu til. Enn fremur hafa almennir dómstólar hér á landi, sem sagt, betur en víða sinnt stjórnskipulegu aðhaldshlutverki gagnvart stjórnvöldum og löggjafa og endurskoðunarhlutverki fyrir borgarana.

Það segir að mínu mati sína sögu að þeir tveir sérdómstólar sem við Íslendingar höfum enn (eftir verulega flóru á síðustu öld) eiga um eða yfir mannsaldur að baki – en skipan þeirra, umhverfi og réttarfar uppfyllir einmitt að töluverðu leyti fyrrgreind fjögur skilyrði fyrir sérhæfingu með öðrum hætti en nýjar og sjálfstæðar dómsstofnanir:

  • Sérdómstóllinn fyrir lagalega ráðherraábyrgð heitir Landsdómur og er, sem sagt, stjórnarskrárbundinn, hefur 106 ára sögu að baki og verður reyndar kallaður saman í fyrsta skipti á næstunni; lögin um hann eru frá 1963 og hafa ekki breyst að stofni til síðan.
  • Sérdómstóllinn fyrir réttarágreining á sviði vinnumarkaðsréttar heitir Félagsdómur og byggist á lögum frá 1938 – sem einnig hafa lítið breyst síðan að því leyti – en byggist á danskri fyrirmynd sem er enn eldri; í raun byggjast slíkir vinnumarkaðsdómstólar gjarnan a.m.k. öðrum þræði á samkomulagi aðila vinnumarkaðarins, þ.e. hér ASÍ, BSBR, BHM – og eftir atvikum stéttarfélaga utan heildarsamtaka – annas vegar og viðsemjenda þeirra f.h. atvinnurekenda hins vegar.

Þessir sérdómstólar – sem eru hvor sínum megin í aldri við níræðan Hæstarétt – eru í fyrsta lagi báðir fjölskipaðir (15 og 5) og í öðru lagi óvenjulegir að því leyti að segja má að stofninn í þá komi – lögákveðið eða samkvæmt hefð – úr almenna dómskerfinu, þ.e. úr Hæstarétti í Landsdóm en reyndur embættisdómari er gjarnan forseti Félagsdóms; hinir dómararnir eru samkvæmt lögum sérfróðir um hlutaðeigandi málefni, stjórnmál og ráðherraábyrgð annars vegar og vinnumarkaðsmál og vinnumarkaðsrétt hins vegar.

Aðrir sérdómstólar hafa horfið á undanförnum áratugum og (trú á) sjálfstæði dómskerfisins að mínu mati aukist að sama skapi.

Tillaga: takmörkun sérdómstóla

Með framangreindum rökstuðningi tel ég því að stjórnarskrá framtíðarinnar eigi eins og hin uppfærða danska fyrirmynd frá 1953 að banna eða a.m.k. takmarka stofnun sérdómstóla

  • annað hvort beinlínis með því að telja þá upp með tæmandi hætti og banna nýja
  • eða óbeint með því að skilgreina við hvaða skilyrði stofna megi (eða afnema) sérdómstóla, svo að löggjafinn geti ekki eftir geðþótta stofnað og afnumið sérdómstóla – en hafi þó svigrúm til þess að líta eitthað til þróunar í því efni.

Auka þannig sjálfstæði í raun

Með þessu vil ég einnig svara annarri spurningunni játandi – að auka verði stjórnarskrárvarið sjálfstæði handhafa dómsvalds – og þá ekki síst með þessum hætti, þ.e. með því að banna eða takmarka nýja sérdómstóla.

***

Næst svara ég síðari þremur spurningunum:

  • Þurfum við fleiri (almenna) dómstóla, svo sem millidómstig og þarf stjórnarskrárbreytingu til þess?
  • Þurfum við þurfum sérstakan stjórnlagadómstól?
  • Krefst stofnun stjórnlagadómstóls eða tilvist hans stjórnaskrárbreytingar?

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur