Laugardagur 23.10.2010 - 13:08 - FB ummæli ()

Meira um dómsvald og stjórnarskrá

Eftir ítarlega færslu í gær, þar sem ég taldi upp og greindi þau fjórtán ákvæði stjórnarskrárinnnar þar sem eitthvað er minnst á dómsvald, dómara, dómstóla eða dóma – með þeirri viðbót, sem gleymdist í upphafi (1. mgr. 70. gr.) er tilefni til frekari ályktana.

Mikið um hlutverk dómsvalds og réttindi borgara…

Stjórnarskrárákvæðum um þetta efni virðist mér að megi skipta í þrjá meginflokka – en öll þessi fjórtán ákvæði voru rakin og greind í síðustu færslu:

  1. Um hlutverk dómsvaldsins (3. ml. 2. gr., 3. ml. 29. gr., 60. gr., 70. gr. og öðrum þræði hin sex ákvæðin í VII. kafla stjskr.).
  2. Um réttindi borgaranna til þess að dómstólar (einir) fjalli um tiltekin atriði; að miklu leyti sömu ákvæði og um hlutverk dómsvaldsins.
  3. Um skipulag og sjálfstæði dómstóla (4. ml. 14. gr., 2. mgr. 34. gr., 59. gr. og 61. gr.).

Einföld talning (10:4) bendir til þess sama og greiningin í síðusu færslu að stjórnarskráin fjalli fremur um hlutverk dómsvaldsins og réttindi borgaranna til þess að dómarar einir meti – eða endurmeti a.m.k. – tiltekin atriði sem lúta að grundvallarréttindum þeirra – einkum svonefnd frelsisréttindi, sbr. færslu mína hér um daginn.

… en lítið um sjálfstæði – og einkum skipulag – dómstóla

Aðeins fjögur ákvæði víkja hins vegar – með fremur fábrotnum hætti – að skipulagi og þó einkum að sjálfstæði dómstóla.

Þegar við bætast ábendingar mínar í síðustu færslu um að

  • aðeins hinn einstaki Landsdómur, sem dæmir um ráðherraábyrgð og er nú að koma saman í fyrsta skipti í 106 ár er beinlínis stjórnarskrárbundinn (4. ml. 14. gr.),
  • aðeins er í stjórnarskránni vikið óbeint að tilvist Hæstaréttar í tveimur ákvæðum um hæstaréttardómara (2. mgr. 34. gr. og 61. gr.) en
  • ekkert er þar vikið að öðrum almennum dómstólum (héraðsdómstólum né heldur óstofnuðu millidómstigi) eða öðrum sérdómstólum en Landsdómi.

Hvaða breytingar þurfum við?

Næsta umfjöllunarefni er því um

  • það formsatriði hvort stjórnarskráin á að kveða meira á um skipulag dómstóla og e.t.v. sjálfstæði og
  • það álitaefni hvort við þurfum fleiri dómstóla, svo sem millidómstig (sem samkvæmt framansögðu þarfnast í sjálfu sér ekki stjórnarskrárbreytingar) og
  • þá spurningu hvort við þurfum sérstakan stjórnlagadómstól – og hvort stofnun hans eða tilvist krefjist stjórnarskrárbreytingar.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur