Sunnudagur 07.11.2010 - 23:24 - FB ummæli ()

Hlítum niðurstöðu þjóðfundar

Nýafstaðinn þjóðfundur 2010 um stjórnarskrá virðist hafa tekist afar vel – og skilað jákvæðri niðurstöðu, öfugt við ótímabær fundarslit á Þjóðfundinum 1851. Stjórnlagaþing og allt starfsfólk og sjálboðaliðar hafa greinilega undirbúið þjóðfund um stjórnarskrá mjög vel – og unnið hratt og gegnsætt úr fyrstu niðurstöðum. Því getur þjóðin (við frambjóðendur til stjórnlagaþings þar með talin) strax kynnt sér niðurstöður þjóðfundar um stjórnarskrá – og unnið úr.

Hafið þökk fyrir.

Hálfur sigur unninn

Í fljótu bragði virðist mér – eins og þeim stjórnlaganefndarfulltrúum sem tjáðu sig í kvöld – að þjóðfundur um stjórnarskrá skili jákvæðu og vel rökstuddu innleggi í kosningar til stjórnlagaþings og ekki síst vinnu stjórnlagaþingsins sjálfs. Niðurstöðurnar virðast (eins og sá þjóðfundur sem ég sat í fyrra) geta bætt heilmiklu við þá sýn sem ég hafði á stjórnarskrána – en hef þó fjallað um hana um árabil. Þjóðfundurinn eykur að mínu mati víðsýni þeirra sem setjast á endanum á stjórnlagaþing; til þess var leikurinn væntanlega líka gerður.

Um leið eykur þátttaka þjóðfundarfulltrúa og umræður um niðurstöður þjóðfundar væntanlega áhuga á stjórnlagaþingi og kosningum til þess; hálfur sigur er þegar unninn eins og ég hef áður skrifað hér.

Átta meginreitir

Helstu niðurstöðum þjóðfundar um stjórnarskrá er lýst í 24 setningum, sem ég fjalla e.t.v. um síðar, og með tré þar sem eftirfarandi stikkorð er að finna í átta reitum:

  1. Land og þjóð
  2. Lýðræði
  3. Siðgæði
  4. Mannréttindi
  5. Valddreifing, ábyrgð og gagnsæi
  6. Friður og alþjóðasamvinna
  7. Réttlæti, velferð og jöfnuður
  8. Náttúra Íslands, vernd og nýting

Fjórþættar niðurstöður

Þessi stikkorð í átta reitum virðist mér mega fella undir fjóra meginþætti, þ.e. annars vegar tvö hefðbundin umfjöllunarefni stjórnarskrár og hins vegar undir tvö umfjöllunarefni sem virðist vanta í stjórnarskrána miðað við atburði undanfarinna ára og umræður hér á Eyjubloggi mínu:

Annars vegar eru það:

  • Æðsta stjórn ríkisins (5: Valddreifing, ábyrgð og gagnsæi).
  • Tengsl borgaranna og ríkisins (4.: Mannréttindi – 7: Réttlæti, velferð og jöfnuður).

Orðin í flestum reitum frá þjóðfundi um stjórnarskrá má hins vegar, sem vænta mátti, flokka undir þau svið – sem sammæli (d. konsensus) gæti verið að mótast um að vanti í stjórnarskrána – sem okkar sameiginlega arf og samfélagssáttmála:

  • Sameiginleg gildi okkar og tengsl innbyrðis og við landið (1: Land og þjóð – 2: Lýðræði – 3: Siðgæði – 8: Náttúra Íslands, vernd og nýting).
  • Tengsl lands og þjóðar út á við (6: Friður og alþjóðasamvinna).

Ég skuldbind mig

Ég vil því – rétt eins og ég geri kröfu til Alþingis og stjórnmálaflokka um að hlíta niðurstöðu stjórnlagaþings þegar að því kemur – sem frambjóðandi til stjórnlagaþings og hugsalegur þingfulltrúi þar í ykkar umboði strax lýsa yfir að

ég hlíti vitaskuld niðurstöðum þjóðfundar um stjórnarskrá og mun leitast við að kynna mér þær sem best – og útfæra á stjórnlagaþingi, fái ég til þess umboð þjóðarinnar.

Það verður ekki erfitt því enn hef ég ekkert séð frá þjóðfundi um stjórnarskrá sem ég get ekki skrifað undir; vandinn er aðeins að koma því í skýr og skilvirk ákvæði sem unnt er að framkvæma – en á því sviði hef ég langa reynslu og menntun sem nýtist í því starfi.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur