Föstudagur 05.11.2010 - 23:57 - FB ummæli ()

Þjóðfundur nú og þá

Á morgun er í fyrsta skipti í tæp 160 ár haldinn þjóðfundur; þeim síðasta var slitið af fulltrúa stjórnvalda áður en ætlunarverki fulltrúa þjóðarinnar var lokið en þessi er upptaktur að fyrsta stjórnlagaþinginu okkar – sem vonandi hlýtur ekki sambærileg örlög.

Athyglisvert er að eina málið sem Þjóðfundurinn 1851 lauk áður en honum var slitið var mannréttinda- og neytendamál:

Algert verslunarfrelsi.

Árið 1851 var Þjóðfundurinn skipaður 40 þjóðkjörnum fulltrúum og sex konungskjörnum og mættu 43 þeirra, þ.e. töluvert fleiri en á fyrirhuguðu stjórnlagaþingi (25-31). Nú er þjóðfundur skipaður um 1000 fulltrúum, völdum af handahófi úr þjóðskrá, og á hann að skila af sér hugmyndum sem þjóðkjörið stjórnlagaþing vinnur úr eftir rúma þrjá mánuði – en ég er í framboði til þess.

Valdhafarnir virði umboð stjórnlagaþings

Þó að ýmislegt fleira beri í milli en 160 ár og mismunandi umgjörð er kjarninn sá sami:

Þjóðin vill setja sér sín stjórnlög – óháð vilja valdhafanna.

Á sínum tíma sleit Trampe greifi þjóðfundi vegna þess að hann taldi þjóðfundarfulltrúa fara út fyrir umboð sitt.

Vonandi gera núverandi valdhafar ekki sömu mistök og Trampe greifi og reyna að halda því fram að þjóðkjörið stjórnlagaþing hafi ekki umboð þjóðarinnar – væntanlega í kjölfar vel heppnaðs þjóðfundar á morgun. Ein leiðin til þess að stuðla að því að Alþingi virði niðurstöður stjórnlagaþings – eins og ég hef nefnt og fjalla betur um síðar – er að niðurstöður stjórnlagaþings fari fyrst til samþykktar eða synjunar hjá þjóðinni áður en Alþingi fær þær til afgreiðslu. Það dregur úr freistingu alþingismanna og stjórnmálaflokka til þess að krukka í niðurstöðurnar, velja og hafna; til þess var leikurinn ekki gerður.

Alþingi hefur vanefnt heit um heildarendurskoðun

Þjóðfundur og stjórnlagaþing eru einmitt sett á fót vegna þess að Alþingi hefur mistekist hlutverk sitt við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar frá því að henni var fyrst lofað 1944.

Annars vita valdhafarnir að hið fornkveðna stendur:

Vér mótmælum allir.

Ég held einmitt að Jón Sigurðsson – arfleifð hans og ímynd – sé eitt af því sem sameinar okkur sem þjóð á tímum sundrungar þar sem sundurlyndistilefnin virðast ófá.

Þetta eru mín skilaboð til þjóðfundar – en svo bíð ég spenntur eftir niðurstöðum þjóðfundar og óska þjóðfundarfulltrúum góðs gengis.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur