Margir segjast aðhyllast persónukjör – færri þora að viðurkenna að þeir séu á móti því; en hvað er persónukjör? Það er ekki einhlítt; sú staðreynd er ein ástæða þess að deilt er um málið.
Um leið og ég árétta að ég er ekki sérfróður um þetta atriði (enda ekki hefðbundið svið í stjórnlagafræði sem ég hef lagt sérstaka stund á í 20 ár) vil ég kynna hvað ég tel að átt sé við með persónukjöri og hvaða tvær leiðir ég tel helst færastar til þess að ná því fram. Auðveldlega má með báðum leiðum tryggja jafnræði kynjanna.
Helstu möguleikar á hvað persónkjör þýðir
Hér eru nokkrir valkostir:
- Afnám stjórnmálaflokka. Ef persónukjör þýðir í huga einhvers bann við flokkum stenst það ekki mannréttindasáttmála; ég gef mér því að fáir aðhyllist það í alvöru – enda þótt þeim mislíki þeir flokkar sem nú starfa. Þeir hinir sömu vilja væntanlega geta stofnað aðra og betri. Auk þess tel ég ólíklegt að unnt sé að stjórna heilu ríki – þótt lítið sé – án tilvistar stjórnmálaflokka og þekki ekki dæmi um slík ríki í fljótu bragði í seinni tíð. M.ö.o. getur persónukosning vel gengið í litlum hreppi og jafnvel í meðalstóru sveitarfélagi þar sem fólk þekkir hvert annað og veit hvaða forystufólk það vill – og vill ekki. Það á ekki við í stærri sveitarfélögum eða ríkjum. Það er m.ö.o. engin tilviljun að við félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar var 1995 bætt sérstöku ákvæði um að vernd þess ætti m.a. við um stjórnmálaflokka.
- Val fólks óháð listum. Stjórnmálaflokkar bjóða fram lista í kosningum. Ef persónukjör merkir í huga almennings réttur til að velja mismunandi fólk á mismunandi listum skil ég það ekki alveg; það gæti væntanlega þýtt að Eygló Harðardóttir, Lilja Mósesdóttir og Margrét Tryggvadóttir fengju flest persónuleg atkvæði en Samfylking og Sjálfstæðisflokkur fengju samtals flest atkvæði sem listar – og meirihluta þingmanna; hver ætti þá að stjórna landinu? Væntanlega þeir flokkar sem mynduðu meirihluta saman og til hvers væru þá persónulegu atkvæðin?
- Röðun óháð lista. Ef persónukjör felur í sér að fólk velji einn lista en raði á öðrum skil ég ekki til hvers; væri það til að hjálpa kjósendum annarra flokka til að raða besta fólkinu í forystu eða væri hugsanlegt að það væri gert til að skemma fyrir?
- Lýðræðisleg röðun innan lista sem kosinn er. Ég er, sem sagt, enginn sérfræðingur í kosningakerfum en eina persónukjörið sem ég skil og fæ séð að gangi upp – og sé reyndar til bóta – er að sníða vankantana af þeim kerfum sem hingað til hafa gilt við röðun forystufólks á lista, svo sem forval, prófkjör o.fl. leiðir sem hafa þótt óheppilegar af ýmsum ástæðum. Ég hef heyrt um tvær slíkar leiðir og vil lýsa þeim í örstuttu máli – en slíkt persónukjör aðhyllist ég.
Persónukjör samhliða kosningum
Þessar tvær leiðir taka fram þeirri leið sem lögð var til í stjórnarfrumvarpi í fyrra en um þá leið hef ég áður skrifað:
Sú leið til persónukjörs, sem lagafrumvarp vinstristjórnarinnar frá í fyrra fól í sér, hafði þann ókost að samtímis skyldi kjósa fólk á lista og velja lista til þings eða sveitarstjórnar; kjósandi gæti því ekki á kosningadag vitað hver yrði í forystu eða í öðrum (efstu) sætum á listanum. Af því leiðir annan ókost, þ.e. að óljóst væri hverjir skyldu tala máli flokksins í kosningabaráttunni. Þriðji ókosturinn er misklíð sem af því gæti hlotist.
Norræna leiðin
Mér fróðari menn hafa tjáð mér að í norrænum ríkjum sé sú leið farin að fyrir kosningar sé stillt upp lista sem að vísu hefur óformlegan oddvita (d. spidskandidat) en annars er listinn óraðaður; endanleg röð frambjóðenda á listanum – og þar með ákvörðun um hverjir teljast kjörnir sem aðalmenn á þing eða í sveitarstjórn og hverjir eru varamenn – ræðst af fjölda persónulegra atkvæða. Raunin er reyndar sú að oddvitinn fær þau oft en það þarf ekkert kraftaverk til að breyta því eins og eftir gildandi reglum hérlendis. Helsta gagnrýni á þessa leið er að hún feli í sér að kosningastjórar og aðrir starfsmenn flokka og framboða hafi of mikil áhrif á það hvort Jón eða Gunna ná fleiri persónulegum atkvæðum með því að senda Jón á vinnustaðafund á dekkjaverkstæði í Hafnarfirði og í viðtal í Dagskránni en koma Gunnu á vinnustaðafund í álverinu og í viðtal í Kastljósi.
Kópavogsleiðin
Hinni leiðinni hef ég áður gert grein fyrir hér í pistli á Eyjunni og fólst hún í stórum dráttum í því að
allir kjósendur á kjörskrá gátu mætt á sama stað á sama degi til að velja á lista í þeim flokki sem þeir völdu sér.
Þessi leið var farin í sveitarstjórnarkosningum í Kópavogi 1970 – og er kostum og göllum hennar lýst í fyrri pistli (en nánar má lesa um hana í Morgunblaðinu 27. desember 2006, bls. 33):
Helstu kostir Kópavogsleiðarinnar eru að allir, sem vilja og geta, mæta á (próf)kjörstað á sama degi á einum stað og enginn raðar á lista í fleiri en einum flokki […]