Þorsteinn Pálsson lét svo um mælt á dögunum, að umræðan um stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá hefði að sumu leyti verið upphafin – og það skilaði ekki árangri. Sjálfur vildi hann horfa á þetta frá „praktískari sjónarmiðum”, því að ekki þurfi að stofna nýtt ríki, gera byltingu, þótt okkur hafi mistekist. Stjórnarskráin væri ekki orsök hrunsins og hefði ekki leitt til stjórnskipulegra árekstra.
Þorsteinn Pálsson er lögfræðingur og gamalreyndur stjórnmálamaður með kalt höfuð – og kalt hjarta og gerir sér ekki grein fyrir því, hversu mikilsvert það er, að almenningur sýni endurskoðun stjórnarskrárinnar lifandi áhuga, auk þess sem óbreyttur almúginn vill bæta samfélagið og endurreisa lýðveldið eftir mesta áfall í 65 ára sögu þess, eins og glögglega hefur komið fram á tveimur þjóðfundum.
Andstætt því sem Þorsteinn Pálsson segir, tel ég mikilsvert, að umræðan um stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá sé upphafin – „sett til virðingar” – eins og merkingin að baki orðinu upphafinn segir til um. Umræðan verður að koma frá heitu hjarta því að „maður sér ekki vel nema með hjartanu – það mikilvægasta er ósýnilegt augunum“, eins og segir í bókinni Litli prinsinn eftir franska skáldið Antoine de Saint-Exupéry. Heitt hjarta er líklegra til að bæta böl en kaldur hugur, svo ég segi ekki kaldhyggja stjórnmálamanna og gamalla lögfræðinga.
Þorsteinn Pálsson segir, að ekki þurfi að gera byltingu og stofna nýtt ríki, þótt okkur hafi mistekist. Mergurinn málsins er hins vegar sá, að bylting var gerð í samfélaginu fyrir tveimur áratugum með því að gefa glæframönnum nýfrjálshyggju lausan tauminn. „Okkur” mistókst ekki, heldur siðblindum „athafnamönnum” og ófyrirleitnum útrásarvíkingum. Kjarklitlir og jafnvel getulitlir stjórnmálamenn létu svo “praktísk sjónarmið ráða” og horfðu aðgerðarlausir á.
Meirihluti þjóðarinnar vill breyta stjórnarskránni á komandi stjórnlagaþingi til þess að gera grundvallarreglur þjóðfélagsins skýrar og breyta þeirri hugsun og þeirri afstöðu sem ríkt hefur. En stjórnlagaþingi bíður mikill vandi – meiri vandi en öllum samkomum og þingum sem haldin hafa verið á Íslandi frá upphafi og meiri vandi en Alþingi hefur staðið frammi fyrir í sögu lýðveldisins. Allir menn, karlar og konur, ungir og gamlir til sjávar og sveita verða því að sameinast um að sýna kosningu til stjórnlagaþings áhuga og virðingu – meiri virðingu en Alþingi nýtur nú. Þá er von til þess að virðing Alþingis aukist einnig.
Tryggvi Gíslason,
frambjóðandi nr. 6428 til stjórnlagaþings.