Laugardagur 20.11.2010 - 19:39 - FB ummæli ()

RÚV fyrir stjórnlagadómstól!

Ég vil taka undir gagnrýni og hrós Eyjufélaga minna og meðframbjóðenda í kjölfar þess að fréttist um miðjan dag í gær að Ríkisútvarpið (RÚV), útvarp í almannaþágu, ætlaði loks – viku fyrir kosningar til stjórnlagaþings – að fara að sinna framboðunum 522 og málefnaáherslum frambjóðenda.

Þá voru sumir reyndar farnir úr borginni – væntanlega m.a. í því skyni að ræða við kjósendur á landsbyggðinni!

Þarf breytingar – hverjar þá – og hvers vegna ég?

RÚV hóf sem sagt í dag upptöku allt að 522 stuttra viðtala við frambjóðendur um eftirfarandi spurningar:

Þarf að breyta stjórnarskrá lýðveldisins núna?

–          Hverju helst?

–          Ef ekki – af hverju ekki?

Af hverju gefur þú kost á þér?

Það mun reynast mér létt verk að svara þessu – gjarnan eftir fleiri ábendingar frá lesendum og kjósendum – enda hef ég fjallað um stjórnarskrána í 20 ár og var því á heimavelli er ég lagði fyrst til stjórnlagaþing fyrir réttum tveimur árum. Mér líður eins og ég sé að fara í próf – en það fannst mér alltaf gaman ef ég þóttist kunna efnið vel.

Viðtalið við mig verður tekið upp snemma á mánudagsmorgun – og sent út [birt síðar] auk birtingar á vef RÚV að því er segir í sjónvarpsfréttum RÚV í kvöld.

Hvað ef ekki?

Niðurstaða RÚV felur í sér jákvæð – en síðbúin – viðbrögð við harðri gagnrýni frá fjölda frambjóðenda, bæði með undirskriftum og pistlum; þar á meðal skrifaði ég fyrir tæpri viku að slíkt tómlæti af hálfu RÚV stæðist hvorki lög né almenna skynsemi og lagði raunar til hugmynd að lausn. Í niðurlaginu sagði:

Áframhaldandi tómlæti RÚV stenst hins vegar hvorki lög né kröfur almennings.

Ég tel stjórnvöld og stjórnendur RÚV hafa viðurkennt réttmæti þessarar gagnrýni með því að ákveða að taka viðtöl við alla frambjóðendur eins og útvarpsstjóri tók raunar fram í fjölmiðlum í gær.

En hvað ef RÚV hefði áfram sýnt tómlæti gagnvart frambjóðendum og málefnaáherslum þeirra í bága við skýran lagabókstaf?

Engar afleiðingar?

Það hefði væntanlega ekki ógilt kosninguna miðað við íslenskar réttarreglur um kosningar – og enginn frambjóðandi hefði getað borið slíkt nægilega fljótt undir almenna dómstóla.

Ef við hefðum hins vegar haft stjórnlagadómstól – eins og ég lagði til í fjórða pistlinum í röð um dómsvaldið og dómstóla – þá hefði væntanlega verið hægt að bera neikvæða ákvörðun stjórnenda RÚV undir stjórnlagadómstól sem hefði e.t.v. fyrirskipað að RÚV skyldi sinna skyldum sínum í tæka tíð og e.t.v. með tilteknum hætti.

Stjórnlagadómstóll eitt af þremur helstu markmiðum frambjóðanda nr. 3249

Ef stjórnlagadómstóli yrði komið á fót – eða Hæstarétti falið það hlutverk eins og ég rökstuddi sem mína tillögu – hefðu hagsmunaaðilar (og í sumum tilvikum e.t.v. aðrir) getað borið það undir stjórnlagadómstól hvort svo þýðingarmiklu lýðræðisverkefni yrði aðeins sinnt með því að kynna þingið sjálft, aðdraganda þess og form – en ekki málefnaáherslur frambjóðenda.

Þess vegna er stjórnlagadómstóll eitt af mínum þremur helstu stefnumálum sem frambjóðandi nr. 3249.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur