Sunnudagur 21.11.2010 - 23:46 - FB ummæli ()

Umhverfis- og almannaréttur í stjórnarskrá

Í gær svaraði ég spurningum fagfélags og hagsmunahóps varðandi afstöðu mína til að taka upp í stjórnarskrá umhverfisákvæði annars vegar og ákvæði um almannarétt hins vegar; ég tel rétt að birta spurningarnar og svör mín hér.

Spurningar Ferðafrelsisnefndar

Svohljóðandi bréf fékk ég í gær frá Ferðafrelsisnefnd sem er vinnuhópur á vegum Ferðaklúbbsins 4×4, Skotvís, Skotreyn, Slóðavina, Jeppavina og fleiri aðila sem tengjast ferðalögum og útiveru:

Í ljósi aukinnar ferðamennsku og vaxandi samkeppni um nýtingu landsins á ýmsa lund, þá finnst mörgum landsmönnum að hætta sé á að verulega verði þrengt að frjálsri för landsmanna um óbyggðir landsins.

Í III grein laga um náttúruvernd (1999 nr. 44 22. Mars ) er kveðið á um almannarétt, þ.e. rétt  almennings til ferðalaga og nýtingar. Ákvæði um almannarétt er reyndar að finna í fornum lagabálkum, svo sem Grágás og Jónsbók.

Ferðafrelsisnefnd hefur íhugað hvort ekki væri rétt að binda í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands rétt almennings til ferða um landið og nýtingu á svipaðan hátt og tilgreint er í lögum um náttúruvernd.

Á þjóðfundinum sem haldinn var þann 6.nóvember 2010 kom fram vilji fundarins til að binda í stjórnarskrá ákvæði um almannarétt. Jafnframt kom fram sá eindregni vilji fundarins  að almannahagsmunir væru ávallt í fyrirúmi og að stjórnarskráin skyldi vera fyrir fólkið í landinu. Við teljum að skýr ákvæði um almannarétt falli vel að þessum sjónarmiðum.

Spurningar ferðafrelsisnefndar

Svo spurði ferðaferlsisnefndin um afstöðu mína til þessa.

  1. Finnst þér rétt að binda í stjórnarskrá ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar?
  2. Munt þú beita þér fyrir því að ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar verði sett í stjórnarskrá?

Svör frambjóðanda nr. 3249

Svör mín eru hér:

Finnst þér rétt að binda í stjórnarskrá ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar?

Svar:

Já.

Röksemdir:

Til viðbótar við ágæt rök Ferðafrelsisnefndar í aðdraganda spurninganna, sem ég tek undir, hallast ég að því að stjórnarskrárbinding ákvæðis um almannarétt sé nauðsynleg í ljósi þess að slíkt ákvæði í náttúruverndarlögum – og áður í okkar fornu lögbókum, Grágás og Jónsbók – hefur ekki verið virt í raun af hálfu sumra landeigenda og því hefur lagaákvæðið ekki verið nægilega virkt í framkvæmd. Það að setja slíkt ákvæði í æðri lög – stjórnarskrána – er til þess fallið að laga þetta – almenningi í hag.

Þá spurði nefndin:

Munt þú beita þér fyrir því að ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar verði sett í stjórnarskrá?

Svar:

Já.

Röksemdir:

Ég vil gjarnan beita mér fyrir slíku ákvæði um almannarétt og í tengslum við það tryggja að slík ferðalög og nýting spilli ekki landi og landgæðum, sbr. m.a. hugmyndir mínar um umhverfisákvæði sem þessu tengist – en um það skrifaði ég einmitt fyrsta pistilinn á Eyjuna sem ég hef skrifað um stjórnarskrá og stjórnlög síðustu 5 vikur; sjá hér. http://blog.eyjan.is/gislit/2010/10/15/hvert-tre-35-000-kr-virdi/

Spurningar Félags umhverfisfræðinga

Félag umhverfisfræðinga á Íslandi (FUMÍ) gerði einnig könnun á afstöðu frambjóðenda til stjórnlagaþings til sérstaks umhverfisverndarákvæðis. Í skeyti félagsins segir að aðalfundur Félags umhverfisfræðinga sem haldinn var 25. september hafi samþykkt svohljóðandi ályktun:

Aðalfundur Félags umhverfisfræðinga á Íslandi hvetur til þess að í nýrri stjórnarskrá íslenska lýðveldisins verði fjallað sérstaklega um umhverfismál. Jafnframt hvetur fundurinn almenning til að horfa til frambjóðenda til stjórnlagaþings sem hafa umhverfismál á stefnuskrá sinni.

Til að fylgja ályktuninni eftir kveðst stjórn FUMÍ hafa ákveðið að kanna afstöðu frambjóðenda til hugmynda um að umhverfisverndarákvæði verði í endurskoðaðri stjórnarskrá. Því er spurt:

Munt þú styðja tillögur þess efnis að umhverfisverndarákvæði verði bætt við íslensku stjórnarskrána, náir þú kjöri til stjórnlagaþings?

Með umhverfisverndarákvæði er til dæmis átt við ákvæði um sjálfbæra þróun, um rétt almennings til heilnæms umhverfis, um umgengni við náttúru og umhverfi með tilliti til komandi kynslóða og um vernd villtra dýrastofna.

Tekið var fram að nöfn þeirra frambjóðenda sem hyggðust styðja tillögur um umhverfisverndarákvæði í stjórnarskrá yrðu birt á heimasíðu Félags umhverfisfræðinga www.umhverf.is<http://www.umhverf.is/>.

Svar mitt um umhverfisákvæði

Svar mitt er skýrt:

já.

Ítarleg rök mín og tillögu að slíku ákvæði má finna í fyrsta pistlinum af um 40 pistlum sem ég hef nú skrifað daglega á Eyjuna síðan ég ákvað um miðjan október sl. að gefa kost á mér til stjórnlagaþings; þann pistil má finna hér:

http://blog.eyjan.is/gislit/2010/10/15/hvert-tre-35-000-kr-virdi/

Að lokum tók ég eftirfarandi:

Hins vegar er ég opinn fyrir öðrum tillögum, viðbótum og breytingum, á þessari tillögu.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur