Mánudagur 22.11.2010 - 21:47 - FB ummæli ()

Jafnt atkvæðavægi sjálfsögð mannréttindi (gestapistill)

Á Íslandi búum við ekki við þau grundvallarmannréttindi sem felast í jöfnu atkvæðavægi. Atkvæði vega ekki jafnt og í marga áratugi hefur verið deilt um jöfnun atkvæðisréttar. Því miður hefur andstæðingum þessa brýna máls tekist að gera þetta að deilumáli milli landsbyggðar og þéttbýlis á SV-horni landsins. Jöfnun atkvæðisréttar er hins vegar miklu stærra mál en hagsmunir landsvæða, því það snýst um að hver og einn kosningarbær maður hafi sama rétt til að kjósa og atkvæði hans hafi sama vægi.

Heildarhagsmunir eiga að ráða för

Í áranna rás hafa ýmsar breytingar verið gerðar á kosningakerfinu til að jafna atkvæðismun eftir landshlutum. Það hefur meðal annars verið gert með því fækkun og stækkun kjördæma. Enn hefur þó ekki tekist að gera landið að einu kjördæmi. Með því næst sá árangur að jafna út misvægi atkvæða og fullkominn jöfnuður næst milli kjósenda. Einnig verður kosningakerfið einfalt og auðskilið og stjórnmálaflokkarnir fá fulltrúa í samræmi við atkvæðismagnið sem þeir hafa fengið í kosningum. Veigamesta atriðið er hins vegar að í afstöðu þeirra til einstakra mála munu þingmenn láta heildarhagsmuni ráða för í stað þröngra kjördæmahagsmuna.

Þeir sem eru á móti jöfnun atkvæðisréttar benda á að ef þess konar kerfi verði tekið upp, aukist flokksræði og þingmenn fjarlægist kjósendur í dreifðari byggðum landsins og áhrif hinna dreifðari byggða á stjórn landsins minnki að sama skapi. Nú þegar eru kjördæmin orðin stór og þessar raddir heyrast í núverandi kerfi.

Jöfnuður óháð búsetu

Með því að gera landið að einu kjördæmi er stigið stórt skref í átt að auknum jöfnuði í þessu landi, öllum þegnum þess til góðs. Engin rök eru fyrir því að mismuna fólki eftir því hvar það er búsett í landinu. Því er það stór áskorun fyrir komandi stjórnlagaþing að leiðrétta hið mikla óréttlæti sem felst í óbreyttu kjördæmakerfi.

Þó ég sé sjálf búsett í Reykjavík í dag er ég alin upp á landsbyggðinni og er því meðvituð um mikilvægi hennar fyrir landið allt. Það verður að tryggja blómlega byggð á öllu landinu og þó ég vilji „einn maður eitt atkvæði“ þá verður að tryggja að staða landsbyggðarfólks verði ekki lakari en okkar sem búum á SV-horninu. Á sama tíma og ég berst fyrir því að gera landið að einu kjördæmi vil ég því að leitað verði leiða við að tryggja hagsmuni landsbyggðarinnar svo að þeir verði alltaf metnir að jöfnu við hagsmuni höfuðborgarsvæðisins.

Andi nýliðins þjóðfundar er að jafna eigi atkvæðisrétt og gera eigi landið að einu kjördæmi. Þetta er í samræmi við mínar skoðanir og mun þetta verða eitt af mínum baráttumálum á stjórnalagaþingi, nái ég kjöri.

Íris Lind Sæmundsdóttir,

frambjóðandi nr. 5108.

www.facebook.com/Iris.Lind.Stjornlagathing

www.irislind.net

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur