Ég sat við tölvuskjáinn úti í Árósum þar sem ég var í námi þegar allt hrundi, táraðist yfir að sjá hvernig komið var fyrir íslenskri þjóð en upp frá því kviknaði áhugi á því að leggja mitt lóð á vogarskálarnar við það að nýta þetta tækifæri til þess að bæta íslenskt samfélag og hag almennings.
Hvers vegna mótmælir fólk?
Undanfarin tvö ár hafa Íslendingar fjölmennt reglulega á Austurvöll, jafnvel í nístingskulda, kveikt elda og barið af öllum mætti í potta, pönnur, tunnur og ýmislegt fleira. Fólk hefur hent eggjum og látið óánægju sína í ljós með ýmsum hætti. Hvers vegna ætli fólk geri þetta? Jú, vegna þess að í núverandi stöðu eru þetta einu vopnin sem almenningur hefur. Minnstu munaði að yfir þjóðina yrði lagður ókleifur skuldaklafi vegna Icesave samninganna sem kostað hefðu þjóðina og komandi kynslóðir augun úr. Sem betur fer reis þjóðin upp og forseti landsins stöðvaði af mestu ólög sem farið hafa í gegnum Alþingi Íslendinga. Þessi atburður og margir aðrir sem tengjast hruni fjármálakerfisins hafa vakið þjóðina og upplýst þörfina fyrir það að endurskoða rammann um það samfélag sem við búum í, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.
Sögulegt tækifæri
Þegar allt fer í þrot þá skapast gríðarlegt tækifæri til endurmats og vaxtar. Það tækifæri liggur hjá íslensku þjóðinni núna. Erfiðasta fólkið sem maður mætir á lífsleiðinni og erfiðasta lífsreynslan er í raun það sem maður ætti að vera þakklátastur fyrir því það gerir mann að því sem maður er. Þessu hefur Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbeta, haldið fram. Við eigum einstakt tækifæri til þess að endurmeta grunngerð samfélags okkar og vaxa upp til blómlegri framtíðar. Margar af bestu stjórnarskrám heims hafa verið samdar upp úr hruni og kreppu. Margir mestu leiðtogar heims hafa einnig stigið fram á válegum tímum. Þetta er stórt og mikið samvinnuverkefni og við þurfum öll að leggjast á árarnar og vinna það saman.
Á Íslandi eiga allir að geta haft það gott
Samfélag rúmlega 318 þúsund manna sem byggja eitt gjöfulasta land heims á að geta verið gott samfélag og þar eiga allir að geta haft það gott! Það hefur því miður ekki verið raunin. Gæðum landsins hefur verið mjög misskipt, sumir eiga milljarða en aðrir standa í biðröðum eftir mat. Þessu getum við breytt og þessu verðum við að breyta. Almenningur verður að snúa bökum saman og berjast fyrir betra Íslandi. Vel heppnað stjórnlagaþing er fyrsta skrefið inn í nýja framtíð. Ég vil meðal annars sjá þjóðareign á auðlindum sem ákvæði í nýrri stjórnarskrá og greinar sem stuðla að því að valdið liggi raunverulega hjá fólkinu eins og ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og persónukjör.
Þjóðin á að kjósa um nýja stjórnarskrá áður en þingið tekur frumvarpið til meðferðar
Til þess að raunveruleg breyting náist fram verður lýðræðið að virka og valdið að liggja hjá þjóðinni sjálfri alla leið. Þegar drög að nýrri stjórnarskrá hafa verið samin af stjórnlagaþingi þarf þjóðin að greiða atkvæði um hvern kafla hennar og drögin í heild sinni áður en Alþingi fær málið til umfjöllunar.
Þú átt leik – taktu þátt í þvi að byggja betra Ísland og mættu á kjörstað á laugardag!
Kristbjörg Þórisdóttir,
frambjóðandi nr. 6582,