Miðvikudagur 24.11.2010 - 21:20 - FB ummæli ()

Stjórnlagadómstól gegn spillingu

Ekki þarf að skírskota til Árbótar-málsins til þess að hefja umfjöllun um álitamál er varðar óvandaða stjórnsýsluhætti og jafnvel ólögmæta – og þar með, eftir atvikum, bótaskylda – stjórnsýsluhætti.

Um daginn skrifaði ég um hvað ef RÚV hefði ekki á 11. stundu brugðist við gagnrýni og tekið upp maraþonsyrpu með um 500 viðtölum á þremur dögum við alla frambjóðendur til stjórnlagaþings sem þáðu það góða boð. Þá hefði ekkert úrræði verið til staðar – þar sem við höfum ekki stjórnlagadómstól.

Raunverulegur vandi – alvöru lausn

Við þurfum þó ekki að taka ímynduð dæmi til að sýna þörfina á stjórnlagadómstól; bara í fyrradag sá ég tvær fréttir – sem hefðu getað verið kæruefni fyrir stjórnlagadómstóli eins og ég hef lagt til:

Enda þótt samtök heyrnarlausra hafi fyrir nokkrum árum haft ráðrúm til þess að bera lögmæti kosningaumfjöllunar RÚV undir almenna dómstóla og þó að flýtimeðferð tiltekinna mála sé nú heimil er ljóst að skjótvirkari úrræði þarf til í slíkum tilvikum.

Lausnin gæti verið að fela Hæstarétti eða tilteknu afbrigði af Hæstarétti að gegna til viðbótar hlutverki stjórnlagadómstóls; þá hefðu hlutaðeigandi aðilar – t.d. Sjómannafélag Íslands eða Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi – getað borið lögmæti ofangreindrar framkvæmdar á stjórnlagaþingskosningum undir stjórnlagadómstól með skjótum og skilvirkum hætti. Úrlausn hefði væntanlega fengist innan fárra daga þannig að auðveldara hefði verið að bregðast við niðurstöðunni hefði hún verið kærendum í hag.

Stjórnlagadómstóll betri en fleiri efnisákvæði

Þetta er enn ein ástæðan fyrir því að stjórnlagadómstólll er eitt af mínum þremur helstu stefnumálum sem frambjóðandi til stjórnlagaþings á laugardaginn.

Þetta og hin meginstefnumál mín er að mínum dómi betur til þess fallið að skapa jafnræði, valdajafnvægi og réttlæti en sífellt fleiri efnisákvæði í stjórnarskrá – því að vandinn er ekki alltaf að efnisreglur skorti heldur að úrræði vantar til handa borgurunum í því skyni að ná rétti sínum og láta á hann reynda með bindandi og skjótum hætti.

Heyrnleysingjamálið gegn RÚV gott fordæmi

Ágætt dæmi um slíkt mál – og óvenjulega skjóta málsmeðferð fyrir almennum dómstólum – má finna í dómi Hæstaréttar fyrir rúmum áratug sem lýst er svo í útdrætti:

Félag heyrnarlausra og B kröfðust þess að Ríkisútvarpinu yrði gert skylt að láta túlka á táknmáli framboðsumræður í sjónvarpi, kvöldið fyrir kosningar til Alþingis, um leið og þær færu fram. Talið var að það væri óaðskiljanlegur þáttur kosningarréttar, sem verndaður væri í III. kafla stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 3. gr. I. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, að sá sem réttarins nyti hefði tækifæri til að kynna sér þau atriði sem kosið væri um. Ljóst þótti að það sé í samræmi við lögákveðið hlutverk Ríkisútvarpsins samkvæmt 15. gr. útvarpslaga nr. 68/1985 að það kynni frambjóðendur og stefnumál þeirra fyrir kosningar til Alþingis. Bæri Ríkisútvarpinu ótvírætt að gæta jafnræðis þegar það sinnti þessu hlutverki sínu og lyti sú skylda ekki aðeins að frambjóðendum og þeim stjórnmálaöflum sem í hlut ættu, heldur einnig að þeim sem útsendingum væri beint til. Ætti því Ríkisútvarpið að haga gerð og útsendingu framboðsumræðna þannig að aðgengilegt væri heyrnarlausum, sbr. einnig 7. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra. Þótt játa bæri Ríkisútvarpinu verulegu svigrúmi við tilhögun dagskrár og útsendinga yrðu þær ákvarðanir, sem röskuðu þeim skyldum og réttindum, sem mælt væri fyrir um í 15. gr. útvarpslaga og 7. gr. laga um málefni fatlaðra, að styðjast við gild málefnaleg rök. Þótti Ríkisútvarpið ekki hafa fært fram nægilega gild og málefnaleg rök til að réttlæta þá mismunum sem fólst í ákvörðun þess, en fyrir lá að tæknilega var vel framkvæmanlegt hafa þann háttinn á sem krafist var. Einnig var litið til þess að skammur tími var á milli útsendingar og upphafs kjörfundar. Þóttu Félag heyrnarlausra og B eiga rétt á því að kröfur þeirra yrðu teknar til greina við þessar aðstæður.

Þess má geta að dómurinn gekk í Hæstarétti aðeins tveimur dögum fyrir kosningar og degi fyrir lokahnykk kosningabaráttunnar til Alþingis þar sem allir flokkar héldu framboðsræður.

Íraksstríðið og einkavæðing bankanna

Fleira má nefna – frá undangengnum árum – til dæmis um það sem dæmigert væri fyrir mál sem bera mætti undir stjórnlagadómstól í einu eða öðru formi:

M.ö.o. er stjórnlagadómstóll betur til þess fallinn en misöflug stjórnarandstaða og síðbúin gagnrýni af hálfu Ríkisendurskoðunar eða umboðsmanns Alþingis til þess að sporna við spillingu, valdníðslu og öðru ofríki.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur