Miðvikudagur 24.11.2010 - 11:45 - FB ummæli ()

Vilji þjóðarinnar verður ekki veðsettur

Sjálfstæðisbaráttu Íslendinga er ekki enn lokið.

Nú er tími til kominn að fullkomna flutning valdsins frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur með heimastjórn fyrir 105 árum – og færa það alla leið til fólksins. Til þess er stjórnlagaþing.

Þrjár stofnanir njóta sérstöðu vegna hlutverks síns í þágu þjóðarinnar: Alþingi, stofnað 930 og endurreist 1845, Háskóli Íslands, settur í fyrsta sinn á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar 1911, og Ríkisútvarpið, sett á fót á þúsund ára afmæli Alþingis 1930.

Jafnræði í rökræðu

Á Alþingi er nú [vorið 2009] rætt hvort – og þá hvernig – skuli stofnað til stjórnlagaþings til þess að semja í fyrsta skipti og á lýðræðislegan hátt heildstæð stjórnlög – nýja stjórnarskrá sem lögð verði fyrir þjóðina til afgreiðslu. Á Alþingi njóta jafnræðis þau sem styðja hugmyndina og þeir sem andmæla henni. Á sama tíma efna hinar tvær lykilstofnanir þjóðarinnar til umræðu um stjórnlagaþing – sem er vel. Það vekur hins vegar athygli mína að einungis karlar eru kallaðir til í Háskóla Íslands og Ríkisútvarpinu – þótt fjölda sérfræðinga sé til að dreifa úr hópi kvenna. Tvö frumvörp liggja fyrir Alþingi um stjórnlagaþing – hið fyrra frá þingflokki Framsóknarflokksins og hið síðara flutt af fulltrúum fjögurra af fimm þingflokkum. Engir af þeim, sem standa að þessum frumvörpum, voru fengnir til framsögu eða umræðna í háskólanum og ríkissjónvarpinu. Flestir voru efasemdarmenn eða andmælendur hugmyndarinnar – sem virðist þó njóta mikils stuðnings meðal þjóðarinnar á þessum umbrotatímum [vorið 2009].  Ég hefði talið eðlilegt að þessar tvær lýðræðisstofnanir gættu jafnræðis eins og gert er á Alþingi.

„of the people…“

Sú spurning vaknar til hvers ætti að stofna til stjórnlagaþings – og til hvers stjórnlög séu.  Sem höfundur fyrra frumvarpsins um stjórnlagaþing og einn höfunda hins síðara [vorið 2009] vil ég svara í anda Abrahams Lincolns, forseta Bandaríkjanna  – sem taldi í ræðu sinni í Gettysburg í borgarastyrjöldinni að stjórnvöld ættu að vera „of the people, by the people and for the people“.

Þessi fleygu orð Abrahams Lincolns fela í fyrsta lagi í sér að stjórnskipulagið eigi að vera lýðræðislegt í þeim skilningi að almenningur sjálfur eða fulltrúar hans stjórni landinu. Sama á við um stjórnlagaþing – hið fyrsta síðan misheppnuðum Þjóðfundi var skyndilega slitið 1851 af fulltrúa Danakonungs. Á stjórnlagaþingi eiga að sitja og ráða ráðum sínum almennir borgarar landsins. Ókjörnir sérfræðingar eða fulltrúar hagsmunaafla eiga ekki að ráða lögum og lofum um framtíðarstjórnskipan Íslands.

„… by the people…“

Í öðru lagi er grundvallaratriði að þingmenn á stjórnlagaþingi séu valdir af fólkinu sjálfu, lýðnum – sem á að ráða í lýðræði. Ég hafna hugmyndum um að ríkjandi valdhafar, stofnanir eða stjórnmálasamtök eigi að velja þá sem gera tillögur til þjóðarinnar um framtíðarskipulag íslenska lýðveldisins. Einnig er ég andvígur því að hlutkesti ráði vali á fulltrúum á stjórnlagaþing; slíkt væri ávísun á sérfræðingaveldi. Sama gildir um þá hugmynd að þingfulltrúar sinni stjórnlagagerð í hjáverkum eða komi einungis að því að staðfesta niðurstöður sérfræðinga. Stjórnlagaþing eiga þeir að sitja sem áhuga hafa og njóta trausts almennra kjósenda til þess að semja frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir lýðræðislegt framboð og umræðu um málið – og geta því talist fulltrúar þjóðarinnar.

„…for the people“

Í þriðja lagi má ekki gleyma að stjórnskipulagið á að þjóna almenningi fyrst og síðast en ekki hagsmunaaðilum, stjórnmálastefnum eða stofnunum – sem eru aðeins leiðir að því markmiði að tryggja almenna hagsæld í lýðræðislegu réttarríki.

Ekki sérfræðingaveldi

Því nefni ég þetta að á því hefur borið að efasemdarfólk hafi viljað tryggja að stjórnlagaþing undirbyggi ríkjandi skipulag – eða raski því a.m.k. ekki um of. Ég tel – vitaskuld – mikilvægt að tryggt sé að þjóðkjörnir fulltrúar á stjórnlagaþingi njóti aðstoðar færustu sérfræðinga innanlands sem utan – en að ljóst sé hverjir ráði ferðinni. Sérfræðingarnir eiga að aðstoða – en ekki ráða för. Því er mikilvægt að þjóðkjörnir fulltrúar á stjórnlagaþingi njóti stuðnings og verndar í hlutverki sínu sem fulltrúar á stjórnlagaþingi – m.a. í því skyni að þeir verði ekki of háðir sérfræðingum.

Ýmislegt má betur fara í stjórnskipan Íslands og hafa margir sett fram hugmyndir sínar þar um. Um mínar hugmyndir get ég fjallað síðar. Margar þessara hugmynda hafa verið ræddar en ýmsar eru óræddar – og hafa jafnvel ekki komið fram í almennri umræðu. Úr því verður bætt þegar kosið verður til stjórnlagaþings en ég tel mikilvægt að á komandi hausti hafi fulltrúar á stjórnlagaþingi autt blað þegar þeir hefja störf sín.  Þá vænti ég þess að umræða næstu vikna staðfesti þörf á stjórnlagaþingi og að rökræður á komandi mánuðum auðveldi þjóðinni að gera upp við sig hvers konar breytinga er þörf á stjórnskipulagi landsins. Vilji þjóðarinnar verður ekki veðsettur.

(Endurbirt grein frá mars 2009 í Morgunblaðinu)

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur