Þriðjudagur 30.11.2010 - 23:55 - FB ummæli ()

Þakklátur og hrærður

Nú þegar fullveldisdagurinn – mesti hátíðisdagur Íslandssögunnar í mínum huga – er að ganga í garð vil ég þakka kjósendum af öllu landinu fyrir það mikla traust sem mér er sýnt með því að kjósa mig sem einn 25 fulltrúa á fyrsta stjórnlagaþing Íslendinga – nema Þjóðfundurinn 1851 sé talinn með; þegar stjórnlagaþingið kemur saman snemma árs 2011 eru einmitt 160 ár liðin frá þeim endasleppa fundi og raunar 200 ár fá fæðingu frelsishetju vorrar, Jóns Sigurðssonar – sem mótmælti einmitt á Þjóðfundinum gerræði stjórnvalda þess tíma þannig að þingfulltrúar tóku undir einum rómi:

Vér mótmælum allir.

Um leið þakka ég yfir 500 meðframbjóðendum mínum drengilega og málefnalega kosningaumræðu og óska hinum 24 nýkjörnu stjórnlagaþingmönnum hjartanlega til hamingju – með von um djúpt og gott samstarf að því að skapa sátt um ný grundvallarlög fyrir Ísland.

Hér má sjá yfirlit yfir þá rúmlega 40 pistla sem ég birti í þær 6 vikur sem aðdragandi þessara sögulegu kosninga varði fyrir mér – sem frambjóðanda – enda þótt 2 ár og 2 dagar séu nú liðnir frá því að ég stakk fyrst upp á að boðað yrði til stjórnlagaþings í kjölfar kerfishruns.

Stjórnlagadómstóll og aukið jafnræði hagsmuna og milli héraða og miðstjórnar

Þar má lesa um helstu stefnumál mín en þau þrjú sem ég lagði að lokum megináherslu á voru:

  1. Stjórnlagadómstóll.
  2. Jafnræði við samráð ríkisvaldsins við hagsmunaaðila.
  3. Jafnari skiptiing valda milli miðstjórnarvalds ríkisins og valdheimilda í héraði.

Ég er þakklátur og hrærður – og mun fljótlega láta heyra frá mér frekar – á öðrum vettvangi – og ekki síður leitast við að halda áfram að leita viðhorfa annarra og hlusta á kjósendur og aðra stjórnlagaþingfulltrúa.

***

Hér má svo hlusta á viðtal RÚV við mig vikuna fyrir stjórnlagakjörið.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur