Laugardagur 16.04.2011 - 22:00 - Lokað fyrir ummæli

Lög unga fólksins

Í dag sótti ég kynningu á niðurstöðum Stjórnlaga unga fólksins í Iðnó og hafði af því bæði gagn og gaman – m.a. sem ráðsmaður. Þar voru einnig 8 félaga minna úr stjórnlagaráði, sem nýtekið er til starfa; fannst mér gott að rúmlega þriðjungur ráðsins vildi heyra viðhorf unga fólksins áður en stjórnlagaráð hefst handa við að leggja til breytingar á stjórnarskránni en efnisumræður okkar hófust einmitt í gær en fundi ráðsins má sjá á netinu.

Samráð við allan almenning

Auk þess hef ég lagt óformlega til að fulltrúar Stjórnlaga unga fólksins komi á fund stjórnlagaráðs eða fulltrúa þess og geri grein fyrir niðurstöðum sínum um stjórnarskrá framtíðarinnar. Þá hef ég spurnir af því að skriflegar niðurstöður unga fólksins verði unnar og birtar fyrir okkur í stjórnlagaráði í næsta mánuði.

Í síðari pistli vil ég gera grein fyrir öðrum möguleikum fyrir almenning til þess að fylgjast með störfum stjórnlagaráðs og hafa áhrif.

Frumlegar lausnir

Ánægja mín var ekki aðeins vegna þess að ég – eins og nokkrir félagar mínir, sem ég heyrði í – var að miklu leyti sammála áherslum unga fólksins. Ég var ekki síður ánægður með frumlegar tillögur unga fólksins varðandi vandamál sem ég hafði ekki áttað mig á og lausnir á vandamálum, sem ég hafði hugleitt, en ekki fundið lausn á. Þá fannst mér kynning á niðurstöðum þeirra benda til þess að unga fólkið væri skynsamt og vildi ekki hlaupa eftir dægurvandamálum heldur halda í það, sem gott er, og bæta það.

Formlegt samráð við ungt fólk

Titillinn – (stjórn)lög unga fólksins – er heldur ekki bara orðaleikur út frá dægurlagaþætti RÚV þegar ég var táningur fyrir aldarfjórðungi – heldur vísar heitið til þess að við sem eldri erum eigum aðeins eftir að búa við nýja stjórnarskrá í nokkra áratugi eða ár, eftir atvikum, en börnin okkar og barnabörn munu búa við stjórnarskrána í marga áratugi. Þess vegna fannst mér ein besta hugmyndin af mörgum góðum þegar niðurstöður unga fólksins voru kynntar í dag að formlega yrði leitað samráðs við einhvers konar lýðræðislegt ráð ungmenna Íslands, sem ekki hefðu kosningarétt, um málefni sem varða þau sérstaklega. Mér líst sérlega vel á þessa hugmynd og mun hugleiða að bæta henni í tillögu sem ég hef gert um jafnræði þegar haft er samráð við hagsmunaaðila.

***

Ég vek sérstaka athygli á myndböndum um stjórnarskrána á vef Stjórnlaga unga fólksins, sem bæði eru stutt og greinargóð skýring á gildandi stjórnarskrá og gagnast bæði börnum og fullorðnum enda er lögfræðin að baki útskýrð bæði rétt og vel fyrir ólöglærða.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , ,

«
»

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur