Þriðjudagur 26.04.2011 - 18:29 - Lokað fyrir ummæli

Hvar eru íslenskir fjölmiðlar?

Eins og ég vék að í fyrri viku var eitt fyrsta verk mitt sem ráðsmanns að svara ítölskum blaðamanni nokkrum spurningum um stjórnlagaráð og aðdraganda þess – m.a. um atburði í kjölfarið hrunsins. Nú er ég svo nýkominn úr löngu viðtali við tvo franska blaðamenn.

 

Lærum af öðrum

Ég lærði ekki síður af þeim og þeirra reynslu og spurningum – m.a. um sambærilegt ferli í öðrum ríkjum, svo sem Túnis þar sem harðstjóra var nýverið velt úr sessi. Túnisbúar munu hefja stjórnlagaumbætur með kjöri til stjórnlagaþings í júlí. Minnir þetta á þörfina á að veita upplýsingar á ensku um stjórnlagaumbótaferlið hérlendis – svo og að læra af reynslu annarra þjóða af sambærilegu starfi sem Frakkarnir höfðu haft mikið af að segja.

 

Virkir fjölmiðlar forsenda lýðræðis

Mér brá við að heyra upplifun þeirra af því að erfitt virðist að fá upplýsingar um yfirstandandi ferli til stjórnarskrárbreytinga – og afstöðu almennings til stjórnlagaráðs – hvað þá á ensku; bentu þeir réttilega á að upplýsingafrelsi og virk fjölmiðlun væri forsenda lýðræðis. Tómt mál er að tala um þjóðaratkvæði og fleiri tegundir beins lýðræðis og aðhald að stjórnvöldum ef fjömiðlar sofa á vaktinni.

 

Viðurkenndi ég að áhugi erlendra fjölmiðla virtist meiri en íslenskra nú þegar starf stjórnlagaráðs væri að hefjast – a.m.k. ef dæma má af minni reynslu en ég hef, sem sagt, aðeins fengið beiðni um viðtöl frá útlendum fjölmiðlum. Ég hef áður gagnrýnt þögn ríkisfjölmiðilsins í aðdraganda stjórnlagaþingskjörs. Vonandi eykst áhugi fjölmiðla og almennings þegar starf stjórnlagaráðs fer á fullt nú eftir páskana.

 

Vert er hins vegar að íhuga hvort ekki sé brýn þörf á að auka við tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar að erlendri fyrirmynd og hafa þar jákvæð ákvæði um upplýsingafrelsi og virka fjölmiðlun.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

«
»

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur