Nefndir stjórnlagaráðs eru komnar á fullt; þær eru þrjár og mætti miðað við megin viðfangsefni þeirra e.t.v. nefna þær mannréttindanefnd (A), valdþáttanefnd (B) og lýðræðisnefnd (C).
Verkefni „valdþáttanefndar“
Ég sit í nefnd B ásamt sjö öðrum ráðsfulltrúum en hún hefur þessi viðfangsefni:
Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar, hlutverk og staða forseta Íslands, hlutverk og störf Alþingis, ríkisstjórn, störf forseta og ráðherra og verkefni framkvæmdarvaldsins, staða sveitarfélaga.
Undir „hlutverk og störf Alþingis“ og tengt stöðu sveitarfélaga að mínu mati heyrir m.a. svonefnt fjárstjórnarvald – þ.e. valdið til þess að skattleggja og ákveða fjárveitingar – eins og ég geri nánar grein fyrir í stefnuræðu minni á morgun.
Þróun eða bylting!
Í þessari nefnd verður eitt fyrsta verkefnið væntanlega að ákveða í megindráttum hvort lagt verður til svipað stjórnarfyrirkomulag og við höfum búið við – með úrbótum – eða gjörbreyting. Lengi hallaðist ég að því sem nefna má forsetaræði – þ.e. að forseti sé líkt og í Bandaríkjum Norður-Ameríku, Frakklandi og víðar kjörinn sem aðalhandhafi framkvæmdarvalds sem velur sína ráðherra án atbeina þjóðþingsins.
Hin síðari ár hef ég fremur hallast að því að við Íslendingar höldum okkur við þingræði – þ.e.a.s. að ríkisstjórn sé óbeint valin af þjóðþinginu þar sem hún þarf að njóta stuðnings eða a.m.k. hlutleysis Alþingis enda þótt forsætisráðherra sé formlega tilnefndur af forseta og allir ráðherrar skipaðir af forseta. Er þetta í samræmi við þá afstöðu mína að betra sé að þróa stjórnarskrá og aðrar þjóðfélagsbreytingar smám saman með hliðsjón af orðnum atburðum og fyrirliggjandi vandamálum í stað skyndilegra umbyltinga.
Miklar umbætur forsenda
Forsenda þessarar afstöðu minnar – bæði almennt og vals míns á þingræðinu – er þó að fram nái að ganga miklar breytingar á núverandi grunnstoðum þannig að þeir gallar, sem taldir eru á kerfinu og hafa jafnvel sýnt sig með áþreifanlegum hætti, séu sniðnir af.
Gildi til grundvallar
Áður en valið er á milli fyrirliggjandi valkosta – svo sem forsetaræðis eða lagfærðs þingræðis – þarf þó að sammælast um markmiðin sem ætlunin er að ná fram með væntanlegum breytingum; í valdþáttanefndinni í gær ræddi ég ásamt fleirum um þrjú atriði sem breytt kerfi þarf að stuðla betur að:
-
Aukin valddreifing.
-
Ríkari ábyrgð valdhafa.
-
Meiri lýðræðisleg stefnumótun.
Því gladdi það mig mikið er ég sá nú síðdegis að önnur nefnd, A, leggur fram til kynningar á ráðsfundi á morgun tillögu um að í 1. gr. nýrrar stjórnarskrár verði lýst þeim gildum sem lýðveldið Ísland grundvallast á – og þar eru þessi þrjú atriði meðal sex atriða sem gert er ráð fyrir. Góður samhljómur virðist því þegar um mörg grundvallaratriði í stjórnlagaráði.
Fundur stjórnlagaráðs á morgun er sem endranær sendur út beint á vef ráðsins og er auk þess opinn almenningi. Hvet ég alla áhugasama til þess að fylgjast með fundunum og störfum stjórnlagaráðs eftir föngum.