Miðvikudagur 04.05.2011 - 23:58 - FB ummæli ()

Mannréttindakaflinn

Á morgun, fimmtudag, er mikilvægur fundur í stjórnlagaráði – kl. 13 að vanda; eins og aðrir ráðsfundir er hann opinn og sendur út beint og upptakan aðgengileg á vefnum. Þar verða afgreiddar í áfangaskjal fyrstu tillögur nefndar sem fjallar m.a um dómstólaskipan – en á því hef ég mikinn áhuga eins og hér má hlýða á og m.a.lesa um hér, sbr. einnig færslu mína í gær um nýskipan 25% Hæstaréttar.

Ný upphafsgrein í stjórnarskrá um sameiginleg gildi

Þá verða á morgun afgreiddar fyrstu tillögur nefndar um mannréttindi – annars vegar um inntak nýs upphafsákvæðis í 1. gr. stjórnarskrárinnar um sameiginleg gildi til grundvallar stjórnskipun landsins og hins vegar um að mannréttindakaflinn færist fremst í stjórnarskrána eins og margir telja eðlilegt.

Fleiri atriði í jafnræðisregluna

Einnig verða þar kynntar fyrstu tillögur nefndarinnar um efnislegar breytingar á öðrum ákvæðum í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar – svo sem fleiri atriði í jafnræðisregluna sem bannar mismunun á grundvelli tiltekinna ástæðna. Mér virðist t.d. töluverð sátt í stjórnlagaráði um að bæta við orðunum fötlun og kynhneigð – sem dæmi um atriði sem ekki mega leiða til mismununar. Sömuleiðis eru þar fjölmargar tillögur – bæði meiriháttar en fleiri líklega minniháttar – um úrbætur á þessum kafla sem raunar er sá sem margir telja síst ástæðu til þess að hrófla mikið við í ljósi þess að hann var endurskoðaður vel 1995.

Áhugi og áhrif almennings

Spennandi verður að sjá viðbrögð við áfangaskjalinu – eins og fróðlegt er að fylgjast með umræðum á vef ráðsins um innsend erindi. Ég verð var við mikinn og vaxandi áhuga almennings á störfum stjórnlagaráðs og hvet alla áhugasama til þess að fylgjast með og hafa áhrif.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur