Fimmtudagur 05.05.2011 - 23:53 - FB ummæli ()

Stjórnlagadómstóll

Allt síðdegið í dag voru nokkuð efnismiklar umræður í stjórnlagaráði – um tillögur úr nefnd um tilhögun dómsvalds ásamt fleiru – svo að fresta varð til morguns (kl. 9:30) kynningu og umræðu um fyrstu tillögur um breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.

Auk umræðu um skipan óháðra dómstóla sem tryggi auk þess fjölbreytileika og sjálfstæði dómara var rætt um ráðgefandi álitsgjafa, Lögréttu, sem fjalla skyldi um hvort frumvarp, fyrir eða eftir samþykki þess á Alþingi, stæðist stjórnarskrá.

Góð tillaga…

Slík stofnun væri að mínu mati mikil réttarbót og framför eins og dæmin sanna. Í umræðum í stjórnlagaráði í dag um tillögu nefndarinnar fagnaði ég hugmyndinni og lét þess getið að í landi með ríkari réttar- og lýðræðishefð og betri valddreifingu kynni slík lausn að duga. Sagðist ég telja nafnið Lögrétta og það hverjir gætu borið álitamál undir hana góðar tillögur.

… en þarf að vera bindandi…

Stærsta álitaefnið er hins vegar að mínu mati hvort nægilegt er að slík stofnun sé ráðgefandi og gefi álit; ég tel að hún eigi að senda frá sér bindandi niðurstöður, þ.e. dæma í málum.

Eins og rætt var í stjórnlagaráði í dag þarf þá að finna leið til að takmarka kostnað, hindra ósamræmi milli Lögréttu og Hæstaréttar og fyrirbyggja réttarspjöll sem gætu falist í því að hagsmunaaðili gæti ekki gætt réttar síns í máli sem yrði þó dæmt með bindandi hætti í Lögréttu. Ég tel mig hafa fundið hugsanlega lausn á þessu eins og ég skrifaði um hér í október; þar sagði:

Ég held að hæpið verði að telja samkvæmt öllu framangreindu að þörf sé á sérstökum stjórnlagadómstól – eða jafnvel skynsamlegt að stofna slíkan dómstól […] –

Ég hefði því talið að réttast væri að bæta við – helst í stjórnarskrá – heimild til þess að skjóta slíkum og sambærilegum, e.t.v. tilteknum, málum beint til annað hvort

  • Hæstaréttar, t.d. fullskipaðs (9 dómarar), eða
  • sérstaks afbrigðis af útvíkkuðum Hæstarétti að viðbættum einhverjum sérfræðingum á sviði stjórnlagafræði (svipað og Landsdómur er samsettur af hæstaréttardómurum, dómsforseta, prófessor og þingkjörnum “sérhæfðum” dómurum).

… og aukið hlutverk

Þó vildi ég bæta við álitaefnum sem slík stofnun fjallar um, svo sem um hvort athafnir handhafa framkvæmdarvalds standast stjórnarskrá og hvort Alþingi er réttkjörið – eins og Þorvaldur Gylfason ráðsfulltrúi hefur á síðustu tveimur ráðsfundum bent á að fram komi í grein um málið eftir prófessor Eirík Tómasson, nú nýskipaðan hæstaréttardómara. Við það mætti e.t.v. bæta hlutverki Landsdóms – að dæma um ráðherraábyrgð – sem er, sem sagt, skipaður á svipaðan hátt og ég legg til.

Formleg tillaga á morgun

Eins og ég boðaði munnlega í stjórnlagaráði í dag mun ég leitast við að leggja fram á framhaldsráðsfundi á morgun skriflega tillögu um skipan Hæstaréttar er hann gegnir hlutverki stjórnlagadómstóls.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur