Þessi danska frétt vakti áhuga minn í vikunni – þó að ég hafi ekki fylgst með aðdragandanum. Málavextir virðast í fljótu bragði vera að dönsk þingkona, sem nýverið ákvað að hætta á þjóðþinginu við kosningar í vor, tekur með sér feitan biðlaunapakka – heils árs laun án vinnuskyldu – um leið og hún tók við vel launuðu starfi í einkageiranum!
Til stóð að afnema tvöföld laun…
Hvað sem fólki finnst um biðlaun eru reglurnar hérlendis – a.m.k. að því er varðar ríkisstarfsmenn – að þau lækka eða falla niður ef biðlaunaþegi tekur við jafn vel eða hærra launuðu starfi á biðlaunatíma. Álitaefnið i Danmörku var hvort svo ætti að vera – þ.e. hvort reglunum ætti að breyta eins og hér fyrir 15 árum þannig að biðlaunaþegi úr opinberri þjónustu væri ekki á tvöföldum launum. Það stóð greinilega til hjá Dönum – eftir mikinn þrýsing í málinu; væntanleg lög voru kennd við þingkonuna:
Lex Malou.
… en hætt var við
En svo var skyndilega hætt við – og danskir fjölmiðlar segja vitaskuld frá því:
Reglerne, for hvor mange penge politikere, der stopper i Folketinget kan få med sig, bliver alligevel ikke ændret.
Skýringin er sögð gamall samningur milli stjórnmálaflokka; hvað sem líður réttmæti (góðra) kjara þingmanna sýnir dæmið að mínu mati nauðsyn og réttlætingu stjórnlagaþings – helst bindandi eins og ég lagði fyrst til í árslok 2008 – eða til vara ráðgefandi, nú stjórnlagaráðs.
Enginn er dómari í eigin sök
Þó að ég geri ekki ráð fyrir að við í stjórnlagaráði förum að setja efnisreglur eða jafnvel formreglur um kjör þingmanna er ein aðalástæða þess að sjálfstæður aðili þarf að leggja til eða eiga frumkvæði að stjórnlagaumbótum að mínu mati sú að þingmönnum er ekki – frekar en öðrum – treystandi til þess að ákveða eigið hlutverk, starfsumgjörð, kjör og valdskiptingu milli sín og annarra.
Einveldið afnumið
Þingmenn mega eins og aðrir gjarnan hafa skoðun á ráðningarsamning sinn og jafnvel áhrif á erindisbréf sitt frá almenningi – en fáir hafa sjálfdæmi um það. Sú var tíðin að einvaldskonungur var einmitt það, einvaldur – einnig um eigin stöðu; það er liðin tíð – þó að kóngunum hafi fjölgað síðan.
Þess vegna þurfum við ekki bara sjálfstæðan, bindandi stjórnlagadómstól – heldur líka regluleg, þjóðkjörin stjórnlagaþing.