Rétt í þessu svaraði ég netkönnun á dönskum netmiðli um hvenær ég héldi að þingkosningar yrðu í Danmörku.
Er ég svaraði kom í ljós að „liðin“ voru nokkuð jöfn – um 45% svöruðu „í vor“ og um 45% merktu við „í haust“ og svo voru um 10% sem ekki sögðust vita það (eins og við hin vitum það).
Efnisskilyrði eða geðþótti?
Dönsk stjórnskipun er nokkuð rúm með það að sitjandi forsætisráðherra getur rofið þing með atbeina drottningar (sem hefur ekkert stjórnskipulega um það að segja) þegar hann telur ástæðu til – áður en 4ra ára kjörtímabil þjóðþingsins er úti. Einhver efnisskilyrði eru talin gilda – en ég fjölyrði ekki um þau hér.
Í Bretlandi er gengið lengra því að (þótt ég sé ekki sérfróður um breskan stjórnskipunarrétt) þar er víst talið að forsætisráðherra geti beinlínis látið geðþótta (les: stundarhagsmuni eigin flokks) ráða úrslitum.
Vandmeðfarið vald
Hérlendis eru talin nokkur efnisskilyrði – sem ég get rakið ef áhugi er á – en eins og saga okkar sýnir (einkum 1931 og 1974) er þetta mikilvægt og vandmeðfarið vald; síðan voru gerðar réttarbætur 1991 um að þrátt fyrir þingrof héldu þingmenn umboði sínu til kjördags. Kjarnaspurningin nú er þó að mínu mati:
Hver á framvegis að geta rofið þing – ef einhver?
Enginn, þingið eða líka forsetinn?
Í Noregi er ekki hægt að rjúfa þing; þar verða þingmenn til 4ra ára að mynda ríkisstjórn hvað sem tautar og raular. Það gengur að mínu mati ekki að fenginni reynslu okkar Íslendinga – m.a. af ónefndum sveitarstjórnum (m.a. á mölinni). Ég tel ljóst að ágæt tillaga stjórnlaganefndar (sjá www.stjornlagarad.is) um að Alþingi geti ráðið þingrofi sé mikilvæg viðbót við réttarbætur frá 1991 í þessu efni.
Á annar að geta rofið Alþingi?
Spurningin – sem brennur á okkur í viðeigandi nefnd stjórnlagaráðs – er hvort fleiri en Alþingi eigi að geta ákveðið þingrof; margir eru fullir efasemda vegna „polariseringar“ og prinsipp-atriða. Ég skil þau rök.
Sjálfur hallast ég að því að forseti – verði hann enn við lýði – eigi við sérstakar skilgreindar aðstæður að vera bær til þess að rjúfa óstarfhæft Alþingi og boða til kosninga.
Hvað finnst þér? Láttu skoðun þína endilega í ljós.