Hér er breytingartillaga sem ég boðaði á ráðsfundi fyrir viku og skrifaði enn um hér og lagði fram á fundi stjórnlagaráðs í dag við Dómstólakafla og Lögréttu varðandi útvíkkaðan Hæstarétt sem stjórnlagadómstól:
„Orðin „að því marki sem á það reynir í dómsmáli“ í 2. mgr. ákvæðis D3 falli brott ásamt kafla um Lögréttu. Þess í stað komi þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
„Þegar Hæstiréttur dæmir um
- a) lögmæti kosninga til Alþingis,
- b) ráðherraábyrgð eða
- c) hvort lög eða stjórnarathafnir samrýmast stjórnarskrá nefnist hann Lögrétta og skal hann skipaður þannig að auk reglulegra dómara Hæstaréttar sitji þar jafnmargir kjörnir dómarar auk fyrrverandi forseta Alþingis sem síðast gegndi því embætti og situr ekki á þingi. Skal fyrrverandi þingforseti vera forseti dómsins í þeim málum.
Mál skv. c-lið geta þriðjungur alþingismanna, fastanefnd Alþingis eða forseti Íslands borið fram.
Nánar skal mælt fyrir um skipan og störf Lögréttu í lögum.“
Röksemdir fyrir bindandi stjórnlagadómstóli
Bindandi stjórnlagadómstóll
- eykur aðhald að handhöfum ríkisvalds,
- leiðir til meiri gæða í lagasetningu og stjórnarathöfnum
- tryggir tímanlega lausn stjórnskipulegra ágreiningsmála – fyrr en almennir dómstólar og áður en skaði er skeður
- er liður í aukinni valddreifingu og
- gefur hagsmunaaðilum tækifæri til aðildar að máli með svonefndri meðalgöngu.
Tenging stjórnlagadómstóls (Lögréttu) við Hæstarétt
- gefur færi á skjótri lausn stjórnskipulegra álitaefna,
- er skilvirkari en aðrar leiðir þar sem sérþekking Hæstaréttar undanfarna öld nýtist,
- tryggir hæfni dómara betur en margar aðrar leiðir,
- er ódýrari en að setja á fót nýja stofnun,
- stuðlar að samræmi í réttarframkvæmd fremur en réttaróeiningu,
- gefur færi á sameiningu Lögréttu og Landsdóms (svipuð skipan) og
- er skynsamleg nú þegar rætt er um nýtt áfrýjunarmillidómstig þannig að úr störfum Hæstaréttar dregur.
Takmörk á því hverjir geti skotið málum til Lögréttu
- draga úr kostnaði og
- koma í veg fyrir að Lögrétta verði of störfum hlaðin.
Loks þykir ekki fært að Alþingi úrskurði sjálft um eigið kjör, sbr. 46. gr. stjórnarskrárinnar.
Tilefni í dæmaskyni:
- Öryrkjamálið.
- Ágreiningur um auðlindamál.
- Kosningar til stjórnlagaþings.
- Aðild að stríðsrekstri gegn Írak.
- Aðild að EES.
- Niðurfelling þjóðaratkvæðis 2004 í kjölfar lagasynjunar forseta.