Mánudagur 16.05.2011 - 23:58 - FB ummæli ()

Hver á að semja frumvörpin?

Í valdþáttanefnd stjórnlagaráðs, nefnd B, brjótum við þessa dagana heilann um hvernig unnt er að færa stefnumótandi frumkvæði til Alþingis og fastanefnda þess en tryggja um leið að frumvörp og önnur þingmál séu samin af þeirri sérfræðiþekkingu sem nauðsynleg er. Um þetta höfum við rætt og hugsað – bæði í nefndinni og í stjórnlagaráði – auk þess sem ábendingar hafa borist í erindum og á vefnum um að þingmál séu oft svo flókin að hvorki ráðherrar né þingmenn einir séu færir um að semja þau af þekkingu.

Þetta vitum við og þurfum að leysa.

Sem dæmi má nefna er til staðar hjá sérfræðingum Stjórnarráðsins bæði þekking á

  • framkvæmd löggjafar – þ.m.t. ágöllum,
  • athugasemdum frá hagsmunaaðilum við löggjöf og framkvæmd hennar,
  • sjónarmið frá hugsjónasamtökum,
  • forsögu lagasetningar,
  • fyrirmyndum (og vítum að varast) erlendis frá,
  • Evrópurétti sem tengist löggjöf og
  • öðrum alþjóðlegum skuldbindingum eða stefnum varðandi sviðið.

Sumt af þessu – t.d. sjónarmið hagsmuna- og hugsjónaaðila – má raunar fremur auðveldlega flytja til þjóðkjörins þings í stað þess að skipaðir embættismenn og ráðnir sérfræðingar víli og díli um þessi atriði.

Samráð og jafnræði

Þá hafa margir bent á að um leið væri tilefni til þess að auka samráð handhafa ríkisvalds (hvort sem er Stjórnarráðsins eða Alþingis) við samfélagið, hagsmunaaðila og hugsjónasamtök – og að mínu mati ber að tryggja að jafnræði sé viðhaft í því efni.

Af þessum sökum hef ég lagt til – eins og í fleiri málum – að við hittum sérfræðinga og eftir atvikum aðra „hagsmunaaðila“ á þessu sviði til að heyra nánar um hvernig málum er nú háttað og hvaða vandamál og lausnir eru í boði.

Lána eða flytja – ekki tvöfalda

M.ö.o. er ljóst – m.a. vegna smæðar íslenska ríkisins – að síst stendur til að koma upp tvöföldu sérfræðingakerfi. Hvort sérfræðingar Stjórnarráðsins verða fluttir eða lánaðir til Alþingis er álitamál enda kannski úrlausnarefni hvernig unnt er að hafa starfsskyldur við Alþingi en heyra formlega undir ráðherra; einhver millilausn verður að finnast – í því skyni að feta þann meðalveg að auka veg Alþingis í stefnumótun um leið og virtar eru ofangreindar staðreyndir um sérfræðiþekkingu innan og utan Stjórnarráðsins.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur