Þriðjudagur 17.05.2011 - 23:57 - FB ummæli ()

Norska, sænska eða íslenska leiðin?

Í dag er 17. maí – og þá verður mér gjarnan hugsað til Noregs; þar gildir sú sérstaka regla að ekki er heimilt að rjúfa löggjafarþingið, Stortinget, eins og yfirleitt er hægt í þingræðisríkjum á borð við þau sem við sækjum okkar fyrirmyndir. Í þingrofi felst að kjörtímabil (hér: 4 ár) er stytt og boðað til almennra þingkosninga.

Ég hef efasemdir um að sú regla sé vænleg hérlendis og veit ekki til þess að neinn vilji taka hana upp hér; fjölyrði ég því ekki um þennan formála.

Þingið ráði þingrofi að meginstefnu til

Í valdþáttanefnd stjórnlagaráðs, nefnd B, virðist hins vegar ríkur stuðningur við að taka upp að sænskri fyrirmynd þá reglu að þingið sjálft eigi að samþykkja þingrof – í stað þess að forsætisráðherra (sem hefur að vísu meirihluta þingsins á bak við sig ef við höldum okkur við þingræðisskipulag) ákveði þetta – með atbeina þjóðhöfðingja – eins og hér hefur verið gildandi réttur síðan þingræði komst á hér 1904.

Ég er sammála félögum mínum um þessa meginbreytingu – að færa þingrofsréttinn til Alþingis sjálfs. Sjálfsagt er að stytta kjörtímabil og ljúka umboði þingmanna sem sjálfir telja að endurnýjun þurfi að koma til.

Forseti hafi einnig þingrofsrétt  í sérstökum tilvikum

Einu vil ég þó gjarnan bæta við; ég vil gjarnan að sjálfstæður, þjóðkjörinn forseti – ef embættið verður áfram til (sem enn er ekki búið að ráða til lykta í stjórnlagaráði) – hafi í undantekningartilvikum sérstakan þingrofsrétt. Er það í samræmi við þá meginstefnu mína í stjórnlagastörfum mínum að auka valddreifingu og búa til skipulag þar sem einstakir valdþættir veita hver öðrum aðhald (e. checks and balances). Á nefndarfundi í dag orðaði ég þetta eitthvað á þessa leið:

Forseti Íslands getur einnig rofið Alþingi ef þingið er óstarfhæft.

Horfi ég þá til lagalegra fordæma úr stjórnskipunarrétti Ólafs Jóhannessonar prófessors og uppfærslu dr. Gunnars G. Schram prófessors, sem ég aðstoðaði við er ég stundaði laganám við lagadeild Háskóla Íslands á 10. áratug síðustu aldar. Ég viðurkenni að um er að ræða matskennda heimild – eins og oft í stjórnskipunarrétti: forsetinn yrði sjálfur að meta þetta eftir málefnalegum sjónarmiðum og venjum; góð reynsla er af slíku í nágrannaríkjum okkar með langa lýðræðishefð og réttarríkisskipulag. Þá minni ég á að tillögur eru í smíðum um stjórnlagadómstól sem sporna myndi gegn misnotkun og valdníðslu á þessu sviði.

Einnig lít ég til stjórnmálasögu Íslands – bæði starfshátta Alþingis síðustu öld og vandræða í ýmsum sveitarstjórnum undanfarin ár þar sem gott hefði verið að „áfrýja“ til kjósenda ágreiningi og fá nýtt lið inn á völlinn.

Óháður dómari ef leikurinn fer úr böndum

M.ö.o. tel ég nauðsynlegt að einhver óháður aðili eigi að geta skorist í leikinn ef fulltrúar þjóðarinnar á löggjafarsamkundu hennar eru óstarfhæfir – en viðurkenna það e.t.v. ekki sjálfir.

Önnur leið væri að kjósendur gætu krafist þingrofs en sú leið er fjarlægari mér sem lögfræðingi auk þess sem ég aðhyllist fulltrúalýðræði sem meginstef.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur