Miðvikudagur 18.05.2011 - 23:56 - FB ummæli ()

Sannleiksskylda ráðherra

Í valdþáttanefnd stjórnlagaráðs,  nefnd B, höfum við undanfarið unnið að tillögum að því hvernig efla má Alþingi sem handhafa löggjafarvalds og sem eftirlitsaðila gagnvart ráðherrum sem aðalhandhöfum framkvæmdarvalds. Hið fyrra verður á ráðsfundi á morgun lagt fram til afgreiðslu í áfangaskjal og hið síðara til kynningar.

Sannleiksskyldu skortir í stjórnarskrá

Varðandi eftirlitsvaldið höfum við rætt margar álitlegar tillögur í þessu skyni og sumar þeirra koma, sem sagt, til kynningar á morgun; hvet ég alla áhugasama til þess að fylgjast með.

Eitt atriði, sem ég hef lagt til á fundum okkar í valdþáttanefndinni, hefur þó ekki enn verið rætt ítarlega eða til þess tekin afstaða; tillaga mín er að stjórnarskráin kveði á um sannleiksskyldu ráðherra gagnvart Alþingi. Þarna er ekki um að ræða – eins og í mörgum öðrum atriðum í störfum okkar stjórnlagaráðsmanna og -kvenna – tillögu um að skýrar verði kveðið á um eitthvert óljóst atriði eða að eitthvað verði tekið fram formlega sem undirskilið hafi verið sem óskráð regla. Þótt ótrúlegt megi virðast er ekkert í íslensku stjórnarskránni sem kveður á um að ráðherrar skuli segja Alþingi – sem veitir þeim nú í raun umboð þeirra – satt og rétt frá.

Sögulegt og pólitískt tilefni

Þetta er ekki bara fræðilegt álitamál eða vandamál; eins og við vitum, sem fylgst höfum með stjórnmálum undanfarna tvo áratugi og lesið stjórnmálasögu undangenginna áratuga, hefur verið pottur brotinn í þessu efni. Einn lærifeðra minna, dr. Gunnar G. Schram heitinn, prófessor í stjórnskipunarrétti, benti á það í útvarpsviðtali snemma á 10. áratug síðustu aldar, er ég var við laganám, að slíka reglu skorti í íslensk lög og stjórnarskrá.

Ég legg til að við bætum úr þessu – og er opinn fyrir tillögum um orðalag.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur