Eitt af því sem ég hef vakið máls á í stjórnlagaráði og þeirri nefnd (A), sem fjallar um mannréttindakafla stjórnarskrárinnar er að viðbótarvídd vanti í nálgun varðandi mannréttindi. Væntanlega mun ég leggja fram tillögu um þetta – sem tengist ekki beint aðalálitamálinu, sem við erum þessa dagana að takast á um, þ.e. hvort – og hve mikið – auka á við efnisákvæði stjórnarskrárinnar og telja fleiri en færri atriði upp í samræmi við réttarþróun innanlands og fjölda alþjóðlegra sáttmála um aukna mannréttindavernd.
Raunar hallast ég þvert á móti að því að ekki eigi að auka um of við efnisákvæði mannréttindakafla stjórnarskrárinnar – heldur fremur huga að því að hverjum þau beinast.
Mannréttindi lúta vitaskuld að réttindum manna – en oft gleymist að hefðbundið er í stjórnskipunarrétti, bæði lögum, fræðum, dómum og annarri framkvæmd, að félög manna, lögaðilar – t.d. fyrirtæki – njóta gjarnan sömu réttinda þar sem við á, t.d. eignarréttar og atvinnufrelsis.
Ég geri enga athugasemd við það enda fullgild rök fyrir því.
Fyrirtæki ekki síður ógn við réttindi fólks en ríki
Það sem ég vil breyta er hin hliðin; mannréttindi eru sögulega og lagalega f.o.f. annars vegar neikvæð frelsisréttindi og hins vegar jákvæð réttindaákvæði til handa borgurunum – en hvor tveggja tegundin lýtur að sambandinu við ríkið, upphaflega kónginn. Þau segja fyrir um vernd fyrir ríkinu eða rétt til einhvers frá því.
Ég vil gjarnan skýra aðra vídd í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar – mannréttindi borgaranna hvers gagnvart öðrum (sem til er sem fræðilegt álitamál í stjórnskipunarrétti) og þá einkum réttarstöðu einstaklinga gagnvart fyrirtækjum og öðrum lögaðilum. Eins og ég hef oftar en einu sinni rætt opinberlega í embættisnafni og bent á í stjórnlagaráði og á nefndarfundum er ríkið e.t.v. ekki lengur mesta ógn eða oftast stærsta ógnun við frelsi og réttindi okkar „þegnanna.“
Af 100 stærstu efnahagsheildum heims töldust nýverið 51 eða meirihlutinn vera lögaðilar – fyrirtæki eða samsteypur þeirra – en ekki ríki.
Auðvelt er að ráða af sögu Vesturlanda síðustu áratuga og einkum hremmingum okkar Íslendinga síðustu ár að ekki er síður þörf á að setja bönd á fyrirtæki, samsteypur og aðra lögaðila – svo sem hagsmunasamtök – en á athafnarsemi og afskiptasemi handhafa ríkisvaldsins. Að mínu mati er ekki álitamál að lögaðilar hafa á sér minni hömlur þegar um er að ræða misbeitingu valds.
Stjórnarskráratriði?
Nú kann einhver að spyrja hvort einhver þörf sé á að taka á þessu í stjórnarskrá; er ekki nóg að löggjafinn, Alþingi, setji þessi mörk og leikreglur? Af a.m.k. þremur ástæðum tel ég svarið vera neikvætt:
- Framangreind stjórnarskrárvernd lögaðila, þ.m.t. fyrirtækja og samsteypa þeirra, gerir að verkum að takmörkun þeirrar verndar og afmörkun þarf að vera á sama stigi – stjórnarskrárstigi; ella er hætta á að almennum lögum um slíkt yrði hnekkt af dómstólum með vísan til stjórnarskrárverndarinnar.
- Hagsmunatengsl stjórnmálaflokka og þingmanna, sem við í stjórnlagaráði erum að vísu að leitast við að sporna við, geta gert að verkum að þeir séu ekki hæfir til þess að taka á þessu álitamáli með fullnægjandi hætti.
- Af sömu ástæðum er nauðsyn til þess að samskiptum og réttarstöðu fyrirtækja og borgara verði ekki of auðveldlega breytt, þ.e. með almennum lögum.
Hvernig hemjum við skepnuna?
Orðalagið hef ég ekki afráðið – enda er ég ekki sérfræðingur í mannréttindafræðum þó að ég hafi lagt mikla stund á valdþáttahluta stjórnskipunarréttar. Ég er opinn fyrir tillögum frá leikum sem lærðum um hvernig leggja má í stjórnarskrá hömlur við „frelsi“ fyrirtækja og annarra ópersónulegra aðila – „auðvaldsins“ eins og nefnt var á síðustu öld – til þess að hafa slæm áhrif á frjálst líf borgaranna og möguleika til þess að þroskast í lýðræðissamfélagi.
Tíminn er núna.