Mánudagur 23.05.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Stjórnarskráin og eldgos

Halda mætti við fyrstu sýn að fyrirsögnin sé grín – eins og í færslu fyrir stjórnlagaþingskosningar í nóvember sl.; þegar nánar er að gáð er ekki svo vitlaust að athuga samhengi stjórnskipunarinnar við eldgos – eins og nú hafa dunið á þjóðinni og Norðurhveli jarðar tvö ár í röð – sem og aðra ófyrirséðar hamfarir eða óvænta viðburði.

Nýleg dæmi sanna þörfina

Bandarísk stjórnskipan tilgreinir skýra valdaröð ef forseti ferst eða dettur úr sambandi með öðrum hætti. Þar er tiltekin viðbragðsáætlun virkjuð við aðstæður á borð við þær sem komu upp við árásina á Tvíburaturnana 11. september 2001. Sama gera reglur konungsríkja um erfðaröð. Þá eru innan við tvö ár síðan forseti Póllands fórst í flugslysi ásamt töluverðum hluta pólska stjórnkerfisins. Hér gæti eldgos, jarðskjálfti eða aðrar hamfarir gert hluta af íslenska stjórnkerfinu óvirkt eða illa starfhæft; svo ótrúlegt sem það virðist fljúga einnig daglega stórar flugvélar beint yfir kvosinni í Reykjavík þar sem bæði Alþingishúsið, Stjórnarráðshúsið og fleiri ráðuneyti eru staðsett.

Saga okkar sýnir einnig að þörf getur verið á að bregðast við ófyrirséðum aðstæðum; þannig þurfti Alþingi t.d. að taka ákvörðun með vísan til neyðarréttar 10. apríl 1940 um að fela ríkisstjórninni konungsvald er Þjóðverjar hernámu Danmörku.

Íslenska stjórnarskráin fáorð um viðlagaviðbrögð

Í íslensku stjórnarskránni eru fá viðlagaákvæði við slíkar aðstæður; auk reglna um að varaþingmenn taki sæti alþingismanna ef sæti þeirra losnar af einhverjum sökum má helst svohljóðandi ákvæði 7. og 8. gr. og 3.-4. mgr. 11. gr. stjórnarskrárinnar:

Nú deyr forseti eða lætur af störfum, áður en kjörtíma hans er lokið, og skal þá kjósa nýjan forseta til 31. júlí á fjórða ári frá kosningu.

Nú verður sæti forseta lýðveldisins laust eða hann getur ekki gegnt störfum um sinn vegna dvalar erlendis, sjúkleika eða af öðrum ástæðum, og skulu þá forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti hæstaréttar fara með forsetavald. Forseti Alþingis stýrir fundum þeirra. Ef ágreiningur er þeirra í milli, ræður meiri hluti.

Forseti verður leystur frá embætti, áður en kjörtíma hans er lokið, ef það er samþykkt með meiri hluta atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu, sem til er stofnað að kröfu Alþingis, enda hafi hún hlotið fylgi 3/4 hluta þingmanna. Þjóðaratkvæðagreiðslan skal þá fara fram innan tveggja mánaða, frá því að krafan um hana var samþykkt á Alþingi, og gegnir forseti eigi störfum, frá því að Alþingi gerir samþykkt sína, þar til er úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru kunn.

Nú hlýtur krafa Alþingis eigi samþykki við þjóðaratkvæðagreiðsluna, og skal þá Alþingi þegar í stað rofið og efnt til nýrra kosninga.

Þarf að álagsprófa stjórnskipun Íslands?

Þegar vinnu stjórnlagaráðs vindur fram þarf að athuga betur og samræma málfar, lagaleg atriði o.fl. – og þar með talið hafa sumir glöggir félagar mínir í stjórnlagaráði nefnt að stjórnarskrá ætti að álagsprófa af sérfræðingum.

Vel skal vanda það sem lengi skal standa; eitt af því sem þarf að meta á skipulegan hátt er hversu vel stjórnskipan okkar – núgildandi eða til framtíðar – stenst álag af ýmsu tagi.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur