Þriðjudagur 24.05.2011 - 23:32 - FB ummæli ()

Manna-, nútíma-, laga- eða stefnumál

Er við í stjórnlagaráði semjum tillögur að nýrri stjórnarskrá – í stað þeirrar sem gilt hefur, lítt breytt, í mannsaldur frá lýðveldisstofnun 1944, og að stofni til í tvo mannsaldra frá 1874 – er eitt mikilvægasta atriðið hvernig orða á hlutina og til hvers.

Mannamál, já…

Ég er meðvitaður um eftirfarandi:

  1. Almenn og líklega langvinn krafa er meðal almennings um að stjórnarskrá – grundvallarlög okkar allra, æðri öðrum lögum – sé orðuð á nútímamáli í stað þess forna stíls sem víða er skiljanlega enn í gildandi stjórnarskrá sem er, sem sagt, að stofni til frá 1874.
  2. Brýn þörf er á að stjórnarskráin sé á mannamáli og þannig læsilegri almenningi í stað þess að lagatæknilega þjálfun þurfi til þess að lesa hana; sem dæmi má nefna er forsetakafli stjórnarskrárinnar mörgum ólöglærðum eða útlendum vitnisburður um mikil völd forseta – þar til lesendur átta sig á að 13., 14. og 19. gr. draga algerlega úr sjálfstæðu valdi forseta – að gildandi reglum; því kann að vera vilji til þess að breyta.

Ég held hins vegar að mannamál og lagamál sé samrýmanlegt – ef góðir íslenskumenn skilja lagahugsun og ekki síður ef lögfræðingar eru sæmilega þenkjandi á íslensku; sem dæmi má nefna eina fallegustu grein stjórnarskrárinnar eftir breytingu hennar 1995 sem hljóðar svo:

Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.

… en skýrt mál, líka

Þó að þetta orðalag sé ekki í bundnu máli er það bæði gagnort, fallegt og skýrt – lagalega séð; spyrjið hvaða lögfræðing sem er.

Ég vil að þetta sé sem víðast stíllinn eða stefnan í nýrri stjórnarskrá.

M.ö.o. vil ég leysa álitamál, sem við ræðum um þessar mundir bæði í mannréttindanefnd (A) og valdþáttanefnd (B) stjórnlagaráðs, með sama hætti og ég geri ráð fyrir að dóms- og lýðræðisnefnd (C) mun væntanlega leysa úr álitamálum.

Ég vil, sem sagt, leysa hagsmuna- og hugsjónaágreining í stjórnarskrá þannig að skýrt verði hver á að gera hvað og hver hefur hvaða völd og að unnt sé að leysa úr ágreiningi sem rís. Ég geri t.d. ekki ráð fyrir að kosningareglur verði þannig að „stefnt verði að sem mestu jafnræði“ í atkvæðavægi, að dómstólar séu skipaðir „eftir bestu manna yfirsýn“ eða að „kjördæmi séu sem best skipulögð.“

Stjórnarskráin sé virk og virt

Ég er m.ö.o. tilbúinn að koma á nútímamáli í stjórnarskrá og samrýma mannamál og lagamál – en er ekki mjög hrifin af fjórða málinu:

stefnumáli.

Ef stjórnarskráin verður full af stefnumálum – án þess að þeim sé gefin bein virkni eða óbein úrræði til þess að fá þeim framgengt – er ég hræddur um að stjórnarskráin verði almennt lítið virk og lítt virt.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur