Fimmtudagur 26.05.2011 - 23:57 - FB ummæli ()

Takmörk við þrásetu ráðherra

Eitt af mörgum stórum – og smærri – umbótamálum sem við í stjórnlagaráði ræddum í dag var að takmarka bæri í stjórnarskrá hve lengi ráðherra mætti sitja í embætti.

Tillaga okkar til kynningar hljóðaði svo:

Enginn getur setið í embætti forsætisráðherra lengur en 10 ár samtals.

Sú tillaga er í samræmi við ein skýrustu skilaboðin frá þjóðfundi sl. haust – og almennt skynja ég mikinn stuðning við þá tillögu meðal þjóðarinnar.

Á að sleppa þessu…

Ágreiningurinn meðal stjórnlagaráðsfulltrúa – eða öllu heldur álitamálið, því að í ráðinu og á nefndarfundum lýsum við oftast skoðunum okkar sem málefnalegum áherslumun en ekki í átakastíl – lýtur að útfærslunni.

Ekki virðast nefnilega margir mótfallnir slíkri takmörkun þó að einstaka ráðsfulltrúi vilji ganga skemmra og treysta á að

  • aukinn hlutur Alþingis í eigin löggjafarvaldi,
  • styrking eftirlitshlutverks Alþingis og
  • fjölmargar tillögur okkar að valddreifingu

dragi bæði úr vilja og möguleikum ráðherra til þess að sitja lengur en æskilegt er – og þar með úr líkindum á því.

Ég skil þá afstöðu og tek undir rökin – en vil til öryggis og að gefnu tilefni, m.a. frá þjóðfundi, sem áður segir, tryggja þetta í stjórnarskrá.

… eða ganga lengra?

Þá heyrast einnig þær raddir að rétt sé að ganga lengra og takmarka formlega í stjórnarskrá setutíma alþingismanna; sú skoðun virðist í miklum minnihluta – af tveimur ástæðum:

  1. Margir telja að aukinn möguleiki á persónukjöri, sem víðtæk samstaða virðist um í ráðinu þó að tillögur hafi enn ekki litið dagsins ljós, muni sjá fyrir þessu þannig að slæmum þingmönnum verði skipt út – og góðum haldið.
  2. Þá telja margir að ekki sé vanþörf á að á Alþingi sitji ekki aðeins nýgræðingar og byrjendur heldur fólk sem hefur þingreynslu – sem auðveldar þeim að eiga í fullu tré við reynda ráðherra og embættismenn – og ekki síst hagsmunagæsluaðila – sem oft hafa gríðarlega reynslu að baki og margs konar úrræði.

Ég tek undir þessi gagnrök og tel ástæðulaust að stjórnarskrárbinda takmörk við setu fólks á þingi, með framangreindum röksemdum. Því til viðbótar má nefna að ég þekki ekki til fordæma um að takmörkun við setutíma þingmanna sé stjórnarskrárbundin.

Hvað með aðra ráðherra?

Meðal þess sem rætt var í dag var hvort takmörk á setutíma ættu að vera bundin við forsætisráðherra og hvort setutími ráðherra ætti að vera tiltekinn samtals eða samfleytt; tillaga okkar í valdþáttanefndinni (B) var, sem sagt, að hann skyldi vera „samtals“ – en í meðförum málsins í gær kom fram góð málamiðlunartillaga frá Þórhildi Þorleifsdóttur sem hljóðar svo:

Enginn getur gegnt sama ráðherraembætti lengur en 8 ár samfleytt. Enginn getur gegnt ráðherraembætti lengur en í 12 ár samtals.

Slíkt ákvæði uppfyllir að mínu mati eftirfarandi mikilvæg markmið:

  1. Markmiðið um takmörkun á embættistíma ráðherra næst fram.
  2. Ekki er gengið of langt í að hafna starfskröftum reyndra ráðherra.
  3. Mismunur er gerður á samfelldri ráðherrasetu og ráðherradómi samtals.
  4. Tryggt er að enginn sé í sama ráðherraembætti lengur en 8 ár (tvö kjörtímabil).
  5. Auðvelt er að starfsreynsla í einu ráðherraembætti nýtist í öðru – þ.m.t. í hinu mikilvæga embætti forsætisráðherra; ég hef nefnt því til stuðnings að í formannsembætti í samtökum, sem ég starfaði fyrir um tíma, teljist stjórnarstörf ekki með við talningu á hámarksárafjölda sem formaður.
  6. Engu að síður er ekki gerður formlegur munur á fagráðherra og forsætisráðherra – og þannig komið til móts við sjónarmið í stjórnlagaráði í dag um að ekki sé t.d. heldur gott að utanríkisráðherra sé lengi sá sami.

Reynslan

Hvað 5. tl. varðar hef ég nefnt að af síðustu fimm forsætisráðherrum var aðeins einn – DO – 1991, sem hlaut það embætti beint án fyrri ráðherrareynslu – og raunar án þess að hafa áður setið á Alþingi. Hinir fjórir

  • SH – 1988
  • HÁ – 2004
  • GHH – 2006
  • JS – 2009

urðu forsætisráðherrar eftir langa þingreynslu og margháttaða reynslu af öðrum ráðherraembættum.

Samræming við setutíma forseta Íslands

Loks hafa sumir imprað á því að sjálfsagt sé að meta í kjölfarið og til samræmis hvort takmarka eigi setutíma forseta Íslands – en það fer svolítið eftir hlutverki hans í nýrri stjórnarskrá; miðað við tillögur okkar í valdþáttanefnd (B) stjórnlagaráðs og nefnd (C) sem fjallar m.a. um beint lýðræði virðist stefna í að forsetaembættið verði fremur valdalítið ef tillögur stjórnlagaráðs verða samþykktar af þjóðinni.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur