Föstudagur 27.05.2011 - 20:16 - FB ummæli ()

Víst er „þjóðareign“ til

Í tillögum mannréttindanefndar (A) í stjórnlagaráði, sem kynntar voru á fundi stjórnlagaráðs í dag – við góðar undirtektir – felast mörg afar merk nýmæli; hér vil ég aðeins gera eitt hið stærsta að umtalsefni, þ.e. þetta:

Náttúruauðlindir

Náttúruauðlindir Íslands eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Þær ber að nýta á sjálfbæran hátt til hagsbóta öllum landsmönnum. Enginn getur fengið þær til varanlegrar eignar eða afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja.

Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds vernda auðlindirnar og geta veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra gegn fullu gjaldi og til hóflegs tíma í senn. Slík leyfi leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu eru þjóðareign. Til auðlinda í þjóðareign teljast jafnframt náttúrugæði, sem ekki eru í einkaeigu, svo sem nytjastofnar, landsvæði, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi.

Hvað þýðir þetta?

Fyrir utan ýmsar smávægilegar athugasemdir frá mér og fleirum og efnislegar ábendingar og spurningar var stærsta atriðið, sem til umræðu var í dag – og oft áður sem víða – þetta:

Er eitthvað til sem heitir „þjóðareign“?

Stutta svarið

Stutta svarið er:

Já.

Þorvaldur Gylfason rakti það mjög vel í sinni ræðu, sem fyrr, að fyrir þjóðareignarhugtakinu væru góð og gild fordæmi – m.a. úr löggjöf um Þingvelli – þar sem er svohljóðandi ákvæði:

Hið friðlýsta land skal vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar. Það má aldrei selja eða veðsetja.

Um sama leyti rakti Egill Helgason fleiri fordæmi fyrir hugtakinu úr löggjöf okkar.

Rétta svarið

Rétta svarið er hins vegar að auðvitað er það stjórnarskrárgjafinn – þ.m.t. sá aðili sem Alþingi hefur falið frumkvæði í því efni, þ.e. stjórnlagaráð – sem ákveður eða leggur til við þjóðina hvaða hugtök skuli til og nýtt í þágu þjóðar í þessu sambandi sem öðru, svo fremi sem þau séu rökleg og gangi upp. Þorvaldur rakti það einmitt í sinni ræðu að munurinn á ríkiseign, sem einstaka fulltrúar í stjórnlagaráði o.fl. hafa gert að umtalsefni, og þjóðareign – væri sá að þjóðareign mætti samkvæmt tilvitnuðu ákvæði ekki selja. Ríkiseignir má hins vegar selja – t.d. fasteign að uppfylltum skilyrðum – eins og ég benti á; skilyrðið samkvæmt stjórnarskránni er: lagaheimild.

Pólitíska svarið

Eins og ég hef bent á – og fleiri – er auk þess ljóst að dr. Gunnar Thoroddsen – sem var ekki aðeins varaformaður Sjálfstæðisflokksins um árabil, forsætisráðherra 1980-1983 heldur einnig prófessor í stjórnskipunarrétti árum saman og hæstaréttardómari um skamma hríð, svo og sá þingmaður sem á áratugaþingferli sínum sinnti helst og mest endurskoðun stjórnarskrárinnar – lagði til orðalag sem þetta; á bls. 545 í nýrri bók dr. Guðna Th. Jóhannessonar um Gunnar Thoroddsen er þetta haft eftir þingmálum hans og stjórnarskrárvinnu sem stóð áratugum saman og lauk ekki fyrr en rétt fyrir lok forsætisráðherratíðar hans og andlát:

„Þá skuli bundið í stjórnarskrá að „náttúruauðlindir landsins“ séu „ævarandi eign Íslendinga“ og „auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu“ að eilífu „þjóðareign“.

Kvikindislega svarið?

Vandamálið er, sem sagt og samkvæmt framangreindu, ekki að hugtakið gangi ekki upp – þ.e. hvorki skortur á

  • sögulegri skírskotun,
  • röklegu samhengi,
  • pólitískri þýðingu eða
  • lagalegri merkingu

– heldur rötuðust mér þau orð á munn, sem vöktu nokkra ánægju félaga minna í stjórnlagaráði, er ég tók undir með félaga mínum, Þorvaldi Gylfasyni, að þótt hugtakið „þjóðareign“ hefði ekki verið kennt í lagadeild háskólans í lögfræðinámskeiðinu eignarrétti þá gæti stjórnlagaráð lagt til slíkt merkingarbært hugtak; kennslu í lagadeildum yrði í kjölfarið að breyta í samræmi við slíka stjórnarskrárbreytingu.

Þar sagði ég orðrétt:

Þarna er komin skýring á þessu umdeilda hugtaki; þjóðareign er, sem sagt, sú tegund af almannaeign sem má aldrei selja. […] það er einmitt frábrugðið þeim ríkiseignum sem [ýmsir bentu á] að mætti einmitt selja. […]

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur