Gaman var að ganga smá í mannréttindagöngu sl. laugardag – daginn eftir að mannréttindanefnd (A) stjórnlagaráðs kynnti síðari hluta megintillagna sinna í stjórnlagaráði um umbætur á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar – að viðbættum ákvæðum um auðlindir og náttúruvernd o.fl.
Skýrt hugtak um þjóðareign mikilvægt nýmæli
Ég skrifaði fyrir helgi um það mikilvægasta í þessu efni að mínu mati – að þjóðareign auðlinda sé fest í stjórnarskrá með skýru lagalegu hugtaki. Einnig má um það fræðast hér í ræðu Þorvaldar Gylfasonar á sama fundi.
Nú langar mig að vekja athygli á nýmæli í tillögum nefndarinnar sem er nær mínu áhuga- og sérsviði – en ég tek fram að ég sit ekki í nefndinni og á ekki heiður af þessari góðu tillögu til stjórnlagaumbóta, ef af verður.
Samningsréttur stjórnarskrárvarinn nú þegar
Í atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar er ákvæði – síðan 1995 – um að í lögum skuli kveða á um rétt til þess að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu.
Því hef ég stundum reynt að beita í hagsmunagæslu og lögmannsstörfum fyrir launafólk – en sakna þess að aðrir lögmenn geri ekki slíkt hið sama og að í úrlausnum dómara og annarra sé ekki næg meðvitund um þetta nýmæli í stjórnarskrá.
Sanngjörn laun verði stjórnarskrárvarin
Þess þá heldur fagna ég að við þetta ákvæði er í tillögum mannréttindanefndar (A) í stjórnlagaráði er lagt til að bætist að löggjafanum beri einnig að tryggja rétt til
mannsæmandi vinnuskilyrða
og
sanngjarnra launa
auk þess sem áður var nefnt, samningsréttar um réttindi og kjör.
Þá myndi ákvæðið hljóða svo – samkvæmt fyrstu tillögum nefndarinnar, til kynningar:
Í lögum skal kveða á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða, sanngjarnra launa og til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu.
Aðilar vinnumarkaðarins útfæri
Svo breytt ákvæði virðist feta vel meðalveg þess að tryggja grundvallarréttindi í stjórnarskrá en leyfa viðsemjendum á vinnumarkaði að útfæra eftir sinni sérþekkingu, tengslum sínum við viðfangsefnið og áherslum hverju sinni meginatriði á vinnumarkaði.