Föstudagur 10.06.2011 - 21:10 - FB ummæli ()

Fimmskipting ríkisvaldsins

Furðu margir eru enn fastir í þeirri yfir 200 ára gömlu hugmynd Montesquieu að ríkisvaldið sé þríþætt:

  • löggjafarvald
  • dómsvald
  • framkvæmdarvald.

Tveir valdþættir mega ekki gleymast

Þetta er í sjálfu sér rétt – svo langt sem það nær; a.m.k. tveir valdþættir gleymast hins vegar – og þá á ég ekki við það sem stundum er kallað fjórða valdið – fjölmiðlana – því þeir eru að jafnaði ekki (og a.m.k. ekki í eðli sínu) ríkisvald (þó að við séum eins og fleiri með ríkisútvarp); ég er aðeins að ræða um ríkisvald eða opinbert vald – en t.d. ekki „auðvald“ heldur.

  • Annars vegar er  um að ræða svonefnt fjárstjórnarvald – sem felst í skattlagningarvaldi og fjárveitingarvaldi; þó að það sé víða falið löggjafarþingi og skattar séu oft ákveðnir með lögum þá eru svonefnd „fjárlög“ í eðli sínu ekki lög – í skilningnum réttarreglur – heldur fjárhagsáætlun; fyrir þessu færði ég ítarleg rök í nýjum kafla um fjárlög sem ég samdi fyrir um 15 árum í ritinu Stjórnskipunaréttur eftir prófessor Ólaf Jóhannesson í ritstjórn dr. Gunnars G. Schram prófessors og læriföður míns. Þetta vald hef ég raunar í stjórnlagaráði lagt til að skiptist milli Alþingis og sveitarstjórna.
  • Hins vegar er aðhaldshlutverk eða eftirlitsvaldið sem gjarnan er einnig falið löggjafarþingi – en gæti verið annars staðar og ætti e.t.v. að vera það að einhverju leyti samkvæmt hugmyndum sumra stjórnlagaráðsfulltrúa, m.a. í ljósi þeirrar styrkingar á þingræðinu sem tillögur okkar í valdþáttanefnd (B) gera ráð fyrir. Þetta eftirlitshlutverk er ekki löggjafarvald. Þessu valdi er ég hlynntur að sé skipt milli Alþingis og forseta sem óháðs aðila sem geti að sumu leyti betur en flokkspólitískt þing veitt framkvæmdarvaldinu aðhald.

Þessu má ekki gleyma – og að mínu mati væri réttast að telja alla þessa fimm valdþætti upp í stjórnarskránni en ekki aðeins hins sígildu þrjá valdþætti.

Dreifing eða temprun valds

Hvað sem því líður er mikilvægt að íhuga hvort valddreifingu eða valdtemprun verði ekki náð betur með því að löggjafarþingið hafi ekki alla þessa þrjá mikilvægu valdþætti á hendi:

  • löggjafarvald,
  • eftirlitsvald og
  • fjárstjórnarvald.

Svo er það önnur saga að málið snýst – eins og fyrirsögnin bendir til – um skiptingu valds en ekki aðeins aðgreiningu þó að tillögur okkar í stjórnlagaráði endurspegli það e.t.v. enn ekki nógu vel.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur