Þessa dagana er enn og aftur tekist á um mörk fræða og stjórnmála í fjölmiðlum – í Danmörku (sem víðar); þar dregur að þingkosningum – í haust – og stjórnmálamenn (í ríkisstjórnarliðinu) eru sakaðir um að hafa undanfarið ráðist harkalega að tjáningarfrelsi fræðimanna sem leyfa sér að gagnrýna stjórnarstefnu þeirra – sem fræðimenn – en oft með frjálslegu orðavali.
Við þekkjum þetta alltof vel, Íslendingar.
Bæði veit og held og skil?
Áður en ég held lengra vil ég bæta því við að besta lausnin sem ég hef heyrt er að fræðasamfélagið setji sér siðareglur um hvenær það tjái hvort fræðimenn
- vita eitthvað,
- halda sumt og
- hvað þeim finnst um það.
Rétt hjá báðum
Að mínu mati er hvort tveggja rétt – árásir stjórnmálamanna eru staðreynd og órétmætar í þessu tilviki (og raunar flestum tilvikum) að mínum dómi. Orðaval fræðimanna í nýlegum tilvikum í Danmörku er hins vegar stundum frjálslegra en ég myndi velja í opinberu samhengi; aðrir segja að tjáningarformið sé frjálst og fjölmiðlar vilji óformlegt orðaval.
In dubio pro sciense
Hvað sem því líður vil ég að tjáningarfrelsi fræðimanna – og vitaskuld annarra – njóti vafans til að við spornum við því að fræðimenn taki upp svonefnda sjálfsritskoðun og forðumst samfélag sem einn fræðimaðurinn danski líkti í dag við Sovétríkin og Ítalíu undir Berlusconi.
Umbótahugmyndir stjórnlagaráðs
Þess vegna líst mér vel á stjórnlagaumbætur úr mannréttindanefnd (A) stjórnlagaráðs sem hljóða nú svo og eiga að tryggja frelsi til skoðana og tjáningar:
Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.
Hver maður á rétt á að tjá hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.
Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum til verndar öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.
Hér eru engar breytingar frá gildandi stjórnarskrá nema smávægilegar orðalagsbreytingar í 3. mgr.
Upplýsingafrelsi
Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum.
Stjórnsýsla skal vera gegnsæ, halda til haga fundargerðum sínum og gögnum, auk þess að skrásetja og skjalfesta öll erindi sem henni berast, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða.
Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.
Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera öllum tiltæk án undandráttar, nema brýnar og rökstuddar ástæður knýi á um leynd þeirra samkvæmt lögum, svo sem við á um sjúkraskýrslur.
Afhendingu gagna og birtingu þeirra má aðeins setja skorður með lögum, svo sem vegna friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma.
Þetta ákvæði er algert nýmæli – að sænskri fyrirmynd; allar ábendingar eru vitaskuld vel þegnar sem endranær á: www.stjornlagarad.is
Frelsi fjölmiðla
Frelsi fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra og gegnsætt eignarhald skal tryggja með lögum.
Vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara skal tryggja í lögum. Óheimilt er að rjúfa nafnleynd án samþykkis þess sem veitir upplýsingar nema við meðferð sakamáls og samkvæmt dómsúrskurði.
Þetta brýna ákvæði er einnig nýmæli – að gefnu tilefni.
Fræðafrelsi
Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða, lista og menntunar.
Þetta ákvæði er eitt uppáhaldið mitt – eins og fram er komið.
Andsvar
Hér er svo glænýtt andsvar eins ráðherranna dönsku sem sagðir eru andmæla fræðimönnum of harkalega og draga þar með úr tjáningarfrelsi þeirra.