Mánudagur 27.06.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Forseti, af eða á?

Í stjórnlagaráði höfum við undanfarið rætt ítarlegar – en málefnalega að vanda – um hvort hér skuli vera forsetaræði eða þingræði. Enn eigum við eftir að komast að niðurstöðu um tillögugerð okkar til þjóðarinnar í þessu efni. Stærsti annmarkinn á umræðunni finnst mér vera hvað hún er svart/hvít. Eins og félagi minn í stjórnlagaráði, Þorvaldur Gylfason, hefur lýst í ræðu og riti er um að ræða falskar andstæður – m.a. í ljósi þess að tugir ríkja búa við sambland þessara kerfa.

Lítið breytt eða stóraukið?

Margir í stjórnlagaráði eru eins og í þjóðfélaginu almennt á því að halda forsetaembættinu lítið breyttu eða jafnvel halda embættinu en draga heldur úr hlutverki þess; fáir eru þeirrar skoðunar að alveg eigi að afnema embætti forseta. Ég hef skilning á fyrrnefndri afstöðu, sem styðst við hefð, en hallast gegn þeim eins og ég rökstyð á eftir.

Þá eru nokkrir málsvarar þess að taka upp forsetaræði, þ.e. að kjósa forseta eða forsætisráðherra – sem tilnefni ríkisstjórn sína óháð vilja Alþingis eins og t.d. í Bandaríkjunum. Ég var lengi þeirrar skoðunar eins og hef rakið – en held að við séum ekki tilbúin í svo mikla breytingu á íslensku þjóðfélagskerfi.

Millileiðin og misskilningurinn

Það sem ég  undrast er hve lítið fylgi millieiðin, málamiðlunin, virðist hafa – a.m.k. innan þeirrar nefnar sem ég sit í, valdþáttanefndar (B) stjórnlagaráðs. Hún byggist á því að forseti haldi þjóðhöfðingjastöðu sinni en verði áfram í hlutverki hemils til valdtemprunar á löggjafarþing og ríkisstjórn – sem annars eru nokkuð alráð í núverandi kerfi og samkvæmt okkar umbótahugmyndum. M.a. vilja sum okkar að forseti hafi hönd í bagga við að skipa og vernda stofnanir sem eiga að vera sjálfstæðar gagnvart flokkspólitískri ríkisstjórn.

Formalismi og fræðimennska

Að mínu mati virðist andstaðan gegn einhvers konar millikerfi byggjast að nokkru á því að „óhreint“ sé að blanda saman þingræði og forsetaræði. Það styðst þó ekki við efnisleg rök að mínum dómi en minnir á það sem í lögfræðinni er nefnt „Begriffsjurisprudenz“ – hugtakalögfræði – þ.e. að hugtakasmíð fræðimanna skuli ráða úrslitum um pólitík og skipulag frekar en félagsleg markmið og skynsamleg efnisrök.

Þá ber nokkuð á þeim misskilningi andstæðinga þess að auka heldur hlutverk forseta Íslands að með því séu fylgismenn þess meðvitað að reyna að finna eitthvert hlutverk handa forseta til að réttlæta tilvist embættisins – án efnisástæðna.

Verst finnast mér þau mót“rök“ að tillögur okkar, sem viljum auka hlutverk forseta til aðhalds, séu andfeminískar og byggist á sókn eftir hinum sterka leiðtoga, föðurímyndini. Þau standast engan veginn – og særa mig sem feminista og valddreifingarsinna.

Raunverulegu rökin

Rökin eru einföld og byggjast á markmiðum um valddreifingu og mótvægi við flokksræði. Ef Alþingi nær stöðu sinni sem aðalhandhafi löggjafarvalds – sem þingið hefur alls ekki haft í ráðherraræðinu sem ríkt hefur á lýðveldistímanum en tillögur okkar ganga út á – þarf að veita honum eitthvert mótvægi. Þá er Alþingi samkvæmt tillögum okkar í valdþáttanefnd (B) meginhandhafi eftirlitsvalds (eins og nú á raunar að vera).

Við leggjum hins vegar (vonandi) ekki til að Alþingi sé eini valdhafinn í landinu – þótt fjölskipaður sé; vonandi vill enginn stefna að einræði þingsins hérlendis.

Að þessu sögðu er það vitaskuld útfærsluatriði hvernig á að tengja vald og ábyrgð forseta – sem verður að fara saman, sem endranær.

Um þetta hafa menn skrifað fyrr og síðar.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur