Mánudagur 01.08.2011 - 22:31 - FB ummæli ()

Stjórnarform (1. gr.)

Í nýju stjórnarskrártillögunni frá stjórnlagaráði segir í 1. gr.:

Ísland er lýðveldi með þingræðisstjórn.

Í þessu felst augljóslega engin breyting – enda hefur Ísland

  • verið lýðveldi frá 1944 er konungssambandi við Danmörku var slitið – en í lýðveldi felst aðeins að þjóðhöfðinginn er forseti eða annar þjóðkjörinn (eða í sumum tilvikum þingkjörinn) forystumaður – svo sem forseti – þ.e.a.s. þjóðhöfðingi er ekki konungborinn.
  • búið við þingræði frá 1904 er við fengum okkar fyrstu „heimastjórn“ – en í þingræði felst að rikisstjórn þarf að styðjast við meirihluta þjóðþingsins eða getur a.m.k. ekki setið ef henni er vottað vantraust á þjóðþinginu; vantraustsstillaga hefur ekki verið samþykkt á Alþingi í mannsaldur eða meira.

Í gildandi stjórnarskrá segir í 1. gr.:

Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.

Gildandi ákvæði hefur verið talið fela í sér hið sama og framangreint ákvæði í væntanlegri stjórnarskrá enda styður stjórnskipunarhefð þann skilning á orðalaginu þingbundin stjórn. Stjórnlagaráð taldi engu að síður til bóta að taka beint fram að þingræði ríki á Íslandi enda hafa bæði fræðimenn hvatt til þess og leikmenn oft fundið að því að erfitt væri að skilja stjórnarskrána við yfirlestur. Í þessu felst einnig að stjórnlagaráð var nokkuð einhuga um að þingræði væri gott stjórnarform og betra en forsetaræði eða annað stjórnarform þar sem æðstu handhafar framkvæmdarvaldsins eru kjörnir beint af þjóðinni.

Hafa ber í huga að hugtakið „þingræði“ felur ekki í sér að þingið ráði (öllu eða miklu þó að svo sé vissulega – ekki síst samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs) öðru en hverjir sitji í ríkisstjórn;  nánar um það síðar.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur