Þriðjudagur 02.08.2011 - 20:17 - FB ummæli ()

Handhafar ríkisvalds (2. gr.)

Þessi grein í nýja stjórnarskrárfrumvarpinu okkar kom mér aðeins á óvart að því leyti hvað mikill ágreiningur varð um hana í ferlinu en ég taldi hana nokkuð sjálfsagða – þ.e. að telja upp helstu handhafa ríkisvalds – fyrir utan að þarna hefði að mínu mati gjarnan mátt tilgreina tvo mikilvæga þætti ríkisvalds sem fram koma síðar í stjórnarskránni og gleymast oft af fræðimönnum, leikmönnum og leikendum – þrátt fyrir mikilvægi þeirra og þá staðreynd að þeir felast ekki í löggjafarvaldinu, þ.e.a.s.

  • fjárstjórnarvaldið (vald til þess að leggja á skatta, með lögum, og til þess að ráðstafa fé ríkisins með svonefndum fjárlögum) og
  • eftirlitsvald þjóðþingsins með handhöfum og handhöfn framkvæmdarvalds.

Eitthvað fleira?

M.ö.o. tel ég að tilgreina hefði mátt fleiri valdþætti en þessa þrjá sígildu (og nokkuð úreltu skiptingu) frá Montesquieu fyrir nokkrum öldum:

  • löggjafarvald,
  • framkvæmdarvald og
  • dómsvald.

Huggun er harmi gegn að í 37. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins er tekið fram að Alþingi fari með löggjafarvald og „fjárstjórnarvald ríkisins“ og hafi „eftirlit með framkvæmdarvaldinu“ eins og nánar sé tilgreint í stjórnarskránni og öðrum lögum.

Ákvæðið hljóðar svo í 2. gr. í tillögu stjórnlagaráðs:

Alþingi fer með löggjafarvaldið í umboði þjóðarinnar.

Forseti Íslands, ráðherrar og ríkisstjórn og önnur stjórnvöld fara með framkvæmdarvaldið.

Hæstiréttur Íslands og aðrir dómstólar fara með dómsvaldið.

Hvað með þjóðina?

Nokkur samstaða var að tilgreina þjóðina sem umboðsgjafa mikilvægasta þjóðfélagsvaldsins – löggjafarvalds – og til greina kom (eins og uppástungur bárust um og fyrirmyndir eru að) að tilgreina þjóðina sem upphaf alls ríkisvalds. Ofan á varð þó að tilgreina þjóðina aðeins sem umboðsgjafa löggjafarvalds þar eð hún hefur samkvæmt stjórnarskrárfrumvarpinu hlutdeild í því í krafti beins lýðræðis sem síðar verður vikið að; handhöfn framkvæmdarvalds, dómsvalds og fjárstjórnarvalds er hins vegar hjá fulltrúum þjóðarinnar, rétt skipuðum eða -kjörnum. Hlutdeild í eftirlitsvaldinu hefur þjóðin hins vegar óumdeilanlega – einkum í krafti góðra fjölmiðla sem stjórnarskrárfrumvarpið leitast við að stuðla að.

Hlutverk forseta Íslands

Helstu átökin innan stjórnlagaráðs – m.a. fyrir þrýsting frá fræðimönnum og öðrum – lutu að því að forseti Íslands skyldi tilgreindur sem handhafi löggjafarvalds og framkvæmdarvalds eins og í gildandi stjórnarskrá.

Fallist var á hið síðarnefnda með þeim gildu rökum að forseti Íslands staðfestir samkvæmt stjórnarskrárfrumvarpinu nokkrar mikilvægar stjórnarathafnir án þess þó að teljast „leppur“ eða stimpilpúði ríkisstjórnar, sbr. 46. og 73. gr. um störf þingsins, 90. gr. um myndun ríkisstjórnar og 3. mgr. 96. gr. um skipun æðstu embættismanna réttarkerfisins; þetta eru þó að nokkru leyti dæmigerðar þjóðhöfðingaskyldur (d. prerogativ) en ekki hefðbundnar athafnir handhafa framkvæmdarvalds.

Hinu síðarnefnda – að nefna forseta Íslands sem handhafa löggjafarvalds ásamt Alþingi var hins vegar hafnað – af tveimur meginástæðum. Annars vegar þótti að mínu mati rétt að skyggja ekki á Alþingi sem aðalhandhafa – og framvegis jafnvel eina handhafa – löggjafarvaldsins og auk þess hefur forseti hvorki nú né samkvæmt þessu stjórnarskrárfrumvarpi frestandi löggjafarvald – heldur einungis málskotsrétt, sem þó er óskertur frá 26. gr. gildandi stjórnarskrár, sbr. 60. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins. Hins vegar eru numin úr frumvarpinu reglur gildandi stjórnarskrár um að forseti skrifi upp á tillögur ríkisstjórnar að frumvörpum sem leggja á fyrir Alþingi og ekki síður 28. gr. um útgáfu bráðabirgðalaga sem forseti Íslands staðfestir formlega og eru nú aflögð sem réttarheimild samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs (eins og vert væri að fjalla um í sérstökum pistli); í þessum ákvæðum fólst handhöfn löggjafarvalds sem ekki verður lengur við lýði verði frumvarp okkar að stjórnarskrá.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur