Þriðjudagur 09.08.2011 - 23:58 - FB ummæli ()

Vernd réttinda (9. gr.)

Ein af þeim greinum í stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs, sem ég er hvað ánægðastur með, er 9. gr. sem hljóðar svo:

Yfirvöldum ber ætíð að vernda borgarana gegn mannréttindabrotum, hvort heldur sem brotin eru af völdum handhafa ríkisvalds eða annarra.

Í stuttu máli – og vonandi á mannamáli – er þessu ákvæði ætlað að stuðla að því að mannréttindi borgaranna séu ekki aðeins virt af hálfu ríkisins, sem í öndverðu var sá aðili sem ógnaði þeim helst, þ.e. af handhöfum ríkisvalds (upphaflega einvaldra konunga) – heldur einnig af hálfu annarra.

Mesta ógn gegn mannréttindum frá einkaaðilum

Eins og ég benti á í stjórnlagaráði, er ég rökstuddi þörfina fyrir ákvæði á borð við þetta, eru sterkustu – og þar með oft hættulegustu – andstæðingar frelsis og réttinda borgaranna ekki alltaf ríkið eða aðrir opinberir aðilar; á háskólafyrirlestri sem ég tók þátt í fyrir nokkrum árum sem talsmaður neytenda benti ég á að af 100 stærstu efnahagsheildum heimsins væru 51 fyrirtæki eða samsteypur en aðeins 49 fullvalda ríki. Á Vesturlöndum eiga neytendur, launafólk og borgararnir oft frekar undir högg að sækja gagnvart einkaréttarlegum lögaðilum, svo sem fyrirtækjum og hagsmunasamtökum þeirra, en vegna opinberra aðila – enda gilda um þá margvíslegar lagareglur sem leggja þeim ríkar skyldur á herðar og tryggja réttindi borgaranna.

Í samskiptum við einkaaðila eiga borgararnir oft lakari vernd – a.m.k. í raun.

„Lárétt þriðjamannsréttindi“

Þróaðar hafa verið kenningar í stjórnlaga- og mannréttindafræðum um að mannréttindi gildi ekki aðeins „lóðrétt“ í samskiptum ríkis og borgara heldur einnig í sumum tilvikum einnig „lárétt“ milli borgaranna og annarra einkaaðila (þriðju aðila), ekki síst gagnvart sterkari aðilum á borð við fyrirtæki og hagsmunasamtök. Mér – eins og fleirum í stjórnlagaráði sem unnu saman að því að orða þetta ákvæði – fannst ekki rétt að treysta á fræðikenningar nú þegar fulltrúar almennings fengu loks í fyrsta skipti í 160 ár tækifæri til þess að leggja til framtíðar stjórnskipun Íslands án beinnar milligöngu stjórnmálaflokka, embættismannakerfis og hagsmunaafla.

Þetta ákvæði – sem vonandi verður innan tíðar hluti framtíðarstjórnarskrár Íslands – er því að mínu mati ótrúlega mikilvægt þótt fáort sé; það felur í sér að yfirvöld eigi „ætíð“ að vernda borgarana gegn því að brotið sé gegn mannréttindum þeirra – ekki aðeins

  • með þeirri „neikvæðu“ skyldu að halda aftur af sér við slík brot sjálft (t.d. með því að dómarar endurmeti athafnir lögreglu eða að dómstólar hnekki lögum sem brjóta gegn mannréttindum) eða
  • með þeirri „jákvæðu“ skyldu að tryggja aðstæður til félagslegra réttinda (svo sem nægar fjárveitingar svo að skólaskyldu eða þörfum fatlaða sé sinnt eins og vera ber)

heldur líka ef „brotin eru af völdum […] annarra.“

Skörun við 5. gr.?

Eins og ég gat um í pistli mínum fyrir fjórum dögum um 5. gr. er hugsanlegt að einhver skörun sé á milli þeirrar greinar og 9. gr. en 5. gr. virðist þó frekar lúta að virðingu við stjórnarskrána almennt og þeim „jákvæðu“ skyldum handhafa ríkisvalds sem að framan greinir.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur