Þó að stjórnlagaráð hafi að margra mati – réttilega að mínum dómi – verið talið nokkuð vinstra megin við miðju, og e.t.v. heldur meira til vinstri en meðaltal þjóðarinnar – leggur ráðið vitaskuld ekki til breytingar á því að eignarrétturinn sé friðhelgur; vona ég að enginn hafi óttast svo róttækar breytingartillögur.
Eignarréttarákvæðið hefur í yfir 100 ár – m.a. í framkvæmd af hálfu dómstóla – verið eitt sterkasta mannréttindaákvæðið í stjórnarskránni, sem – eins og kunnugt er – er að stofni til óbreytt frá 1874.
Eignarrétturinn er friðhelgur
M.ö.o. leggur stjórnlagaráð til að 1. mgr. 13. gr. sé orðrétt óbreytt frá gildandi stjórnarskrá:
Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
Til gamans má þess geta að í 50. gr. stjórnarskrár Kristjáns konungs IX., er hann færði okkur á 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar 1874, hljóðar ákvæðið orðrétt alveg eins; aðeins greinarmerki og stafsetning er lítið breytt:
Eignarrjetturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji; þarf til þess lagaboð og komi fullt verð fyrir.
Nýmælin felast í 2. mgr.
Heimild til mismununar gagnvart útlendingum felld brott
Annars vegar er fellt á brott ákvæði í gildandi stjórnarskrá sem heimilar löggjafanum að takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignarréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi; sjálfur hafði ég ekki sterkar skoðanir á þessu og lagðist því ekki gegn brottfallinu þegar ágæt frjálslyndisrök komu fram um að það væri óþarft og óréttlátt – enda þótt ég sé raunar nokkuð íhaldssamur að þessu leyti og hafi ekki verið mótfallinn þessu ákvæði, m.a. vegna aukinnar Evrópusamvinnu og ríkra viðhorfa um að greina á milli fasteignarréttinda a.m.k. annars vegar og annarra eigna hins vegar.
Fyrir vikið gildir hin almenna jafnræðisregla fullum fetum nú um eignarréttindi og aðild að þeim – án þessa gamla fyrirvara.
Rétti fylgja skyldur
Hins vegar er bætt við ákvæði sem ég hvatti mjög til, svohljóðandi í nýrri 2. mgr.:
Eignarrétti fylgja skyldur, svo og takmarkanir í samræmi við lög.
Síðari liðurinn um að takmarkanir megi setja með lögum við eignarrétti er í samræmi við
- lagaframkvæmd,
- úrlausnir dómstóla og
- kenningar fræðimanna
áratugum saman, hérlendis sem erlendis. Í síðari lið 2. mgr. felst því aðeins árétting á gildandi reglum.
Meta ber eignarrétt í þjóðfélagslegu samhengi
Nýmælið – sem ég er mjög ánægður með – felst í fyrri lið 2. mgr.; í því felst staðhæfing stjórnarskrárgjafans, verði frumvarp þetta að stjórnarskrá, um að rétti til eignar fylgi ávallt náttúrulegar skyldur. Fyrirmyndin var þýsk – eins og í fleiri tilvikum – um að eignarrétti fylgi skyldur; raunar var á síðustu metrunum samþykkt breytingarillaga um að fella brott annað ákvæði úr áfangaskjali af þýskum uppruna um að nýting eignarréttar skyldi ekki ganga gegn almannahag (en í þýsku stjórnarskránni segir reyndar beinlínis að hann eigi að þjóna almannahag).
Þetta ákvæði um tengingu á milli réttinda og skyldna tel ég að verði mikilvæg og raunhæf leiðbeining til löggjafans – og eftir atvikum til dómstóla – um að eignarréttur sé ekki einhliða og óskilyrtur heldur verði að meta hann í þjóðfélagslegu samhengi; t.d. er það undarlegt að einu eignirnar sem hafa ekki lækkað eftir hrun – heldur beinlínis hækkað – eru verðtryggð skuldabréf!