Sunnudagur 14.08.2011 - 22:11 - FB ummæli ()

Skoðana- og tjáningarfrelsi (14. gr.)

Af fjórum málsgreinum í eftirfarandi tjáningarfrelsisgrein í 14. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs felur sú þriðja í sér eina verulega nýmælið frá gildandi stjórnarskrá:

Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og eiga rétt á að tjá hugsanir sínar.

Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Þó má setja tjáningarfrelsi skorður með lögum til verndar börnum, öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, svo sem nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu. Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi.

Hver og einn ber ábyrgð á framsetningu skoðana sinna fyrir dómi.

Formlegt (fyrirfram) tjáningarfrelsi óskert…

Mikilvægast er að formlegt tjáningarfrelsi er óskert frá því sem felst í gildandi stjórnarskrá; í formlegu tjáningarfrelsi felst bann við fyrirfram tálmunum, svo sem ritskoðun, og öðrum ráðstöfunum, sem áskilja að stjórnvöld samþykki fyrirfram einhverja tjáningu. Er þá byggt á stjórnarskránni frá 1874 (með smávægilegri efnislegri áréttingu 1995) – eins og íslenskir dómstólar hafa yfirleitt túlkað hana alveg frá 1943 er lagaáskilnaður um samþykki ráðherra fyrir tiltekinni stafsetningu fornrita var af meirihluta (2:1) Hæstaréttar talin óheimil fyrirfram tálmun á hinu formlega tjáningarfrelsi.

… en efnislegt (eftirá) tjáningar“frelsi“ vitaskuld ekki óheft

Hér sem endranær og víðast hvar ef ekki alls staðar á byggðu bóli eru hins vegar auðvitað settar skorður við efnislegu tjáningarfrelsi – þ.e. að dæma má menn eftirá fyrir meiðyrði eða annað sem skerðir rétt annarra eða aðra hagsmuni sem taldir eru upp í 2. málslið 2. mgr. 14. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins; sem dæmi má nefna að stjórnarskráin hefur verið af Hæstarétti verið talin heimila bann við áfengisauglýsingum, telji löggjafinn þau uppfylla skilyrði gildandi stjórnarskrár um vernd heilsu (sbr. og nú skilyrði frumvarpsins um vernd barna).

Meiri barnavernd og meira frjálslyndi

M.ö.o. eru ákvæði 1., 2. og 4. mgr. 14. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins efnislega óbreytt frá gildandi stjórnarskrá – þó að uppröðunin sé önnur – að því frátöldu að heimildir til skerðingar á tjáningarfrelsi verða nú ekki lengur grundvallaðar á „allsherjarreglu“ eða „siðgæði manna“ en í stað þeirra hugtaka er vernd barna nú nefnd sérstaklega (auk heilsu sem áður). Má að mínu mati búast við því að af þessu leiði breytta löggjöf – og eftir atvikum dómaframkvæmd – á sviði kynferðis- og áfengismála, þ.e. að auðveldara verði að réttlæta takmarkanir í þágu barna, svo sem gegn grófu ofbeldi, grófu klámi eða bann við áfengisauglýsingum sem eru líklegar til þess að ná til barna. Á hinn bóginn verður væntanlega erfiðara fyrir löggjafann að leggja bann – sem dómstólar samþykki – við kynferðislegu efni og e.t.v. bann við áfengisauglýsingum sem aðeins beinast að fullorðnum – nema heilsuvernd geti réttlæt slíkt.

Líka mér þessar breytingar mjög vel – þ.e. aukin forsjárhyggja í þágu barnaverndar en aukið frjálslyndi á öðrum sviðum, þar sem umdeilanlegir mælikvarðar svo sem „siðgæði manna“ og „allsherjarregla“, sem lengi hafa verið of- og jafnvel misnotaðir til að stýra hegðun og afstöðu fullorðins fólks, eru nú úr sögunni að þessu leyti.

Enn fremur leysir hið almennara hugtak „öryggi“ svolítið ráðstjórnarlegt hugtak, „öryggi ríkisins“, af hólmi og er það vel – auk þess sem öryggi einstaklinga getur t.d. fallið undir það en ekki gildandi stjórnarskrá; studdi ég allar þessar breytingar með ráðum og dáð er þær voru til umfjöllunar í mannréttindanefnd (A) stjórnlagaráðs undir styrkri stjórn Silju Báru Ómarsdóttur formanns.

Auk neikvæðra frelsisréttinda – jákvæð athafnaskylda á ríkið

Loks vil ég benda á að í áðurnefndu nýmæli í fyrri málslið 3. mgr. stjórnarskrárfrumvarps um að stjórnvöld skuli „tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu“ felst það mat stjórnlagaráðs að ekki sé nóg að banna með „neikvæðum“ hætti íhlutun handhafa ríkisvalds í tjáningarfrelsi – sem hefur verið kjarni þessara frelsisréttinda í margar aldir, þ.e.a.s. hvað ríkið má ekki gera. Í þessu felst viðbót um „jákvæða“ skyldu til athafna – þ.e.a.s. hvað ríkinu er skylt að gera.

Með því er viðurkennt að formlegt og efnislegt „neikvætt“ tjáningarfrelsi er ekki lengur nægilegt þegar stórir og sterkir hagsmunaaðilar geta drottnað yfir umræðu og stjórnað henni, sbr. og fyrri pistla mína um 5. gr. og 9. gr. frumvarpsins.

Lýðræðisalda auðvelduð en ekki takmörkuð

Í síðari málslið 3. mgr. um að óheimilt sé „að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi“ felst vitaskuld ekki skylda á hendur ríkinu að tryggja fullkominn netaðgang á Hornströndum hvenær sem er eins og (mis)skilja mátti að fyrra orðalag ákvæðisins í áfrangaskjali fæli í sér. Aðeins er verið að árétta að þessi mikilvæga forsenda tjáningar-, upplýsinga-, fjölmiðla- og lýðfrelsis verði ekki takmörkuð nema með sömu ströngu skilyrðum og eiga við um skerðingu tjáningarfrelsis; væntanlega er rétt að horfa frekar til formlega tjáningarfrelsisins fremur en hins efnislega í því efni en þar þurfa dómstólar, sem samkvæmt stjórnarskrárfrumvarpi þessu eiga að vera sjálfstæðari en nú, að útfæra mörkin nánar.

Fyrirvarinn um úrlausn dómara og sömu efnisskilyrði var af minni hálfu – er ég rökstuddi breytingu á áfangaskjalinu að þessu leyti – meintur til þess að takmarka t.d. rétt gæsluvarðhaldsfanga eða dæmds barnaníðings til óhefts netaðgangs. Hugsun stjórnlagaráðs var hins vegar að lýðræðisstraumar yrðu ekki skertir – heldur efldir – með þessu ákvæði og horfðum við þar m.a. til lýðræðisöldu almennings í einræðisríkjum arabaríkjanna frá upphafi þessa árs.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur