Í 18. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er að finna töluverðar orðalagsbreytingar – en fremur lítið er um efnisbreytingar frá gildandi stjórnarskrá; í frumvarpinu segir:
Öllum skal tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, þar með talinn rétturinn til að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga.
Öllum er frjálst að iðka trú, einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi.
Frelsi til að rækja trú eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.
Segja má að jákvæða trúfélagafrelsið – til þess að stofna trúfélög eins og í gildandi stjórnarskrá – sé undirskilið, sbr. og 20. gr. sem ég skrifa um á laugardag. Fellt er brott ákvæði stjórnarskrár um að ekki megi kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu en ákvæði 3. mgr. um takmarkanir við frelsi „til að rækja trú eða sannfæringu“ koma í staðinn og er þá litið til mannréttindahefðar Evrópu. Þá er fellt brott stjórnarskrárákvæði um að hvorki réttur né skylda borgaranna eigi að skerðast vegna trúarbragða sinna en telja má að það felist í breyttu ákvæði. Enn fremur er fellt brott bann við greiðsluskyldu til trúfélags sem maður á ekki aðild að; telja verður að þetta felist í breyttu ákvæði. Loks er felld brott skylda um greiðslu til Háskóla Íslands ef menn standa utan trúfélaga – sem breyta mátti raunar með lögum.
Hvað viðbætur varðar má helst nefna að lífsskoðun virðist nú lögð að jöfnu við trúarskoðun.