Þriðjudagur 23.08.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Heilbrigðisþjónusta (23. gr.)

Í 23. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Allir eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er.

Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.

Fyrri málsgreinin er nýmæli – í samræmi við alþjóðamannréttindareglur sem Ísland hefur undirgengist. Raunar hafði ég eins og fleiri í stjórnlagaráði og  utan efasemdir – bæði vegna orðalags og efnisinntaks – um orðavalið „að hæsta marki sem unnt er.“ Ef orðið „því“ hefði komið í stað orðsins „hæsta“ hefði ég verið enn sáttari. Erfitt er að áskilja borgurunum rétt til einhvers – og handhöfum ríkisvalds samsvarandi skyldu – sem mannlegur máttur getur e.t.v. ekki tryggt.  Á hinn bóginn er ekki talað um að „tryggja“ þennan rétt í þessu ákvæði.

Þetta varð hins vegar niðurstaða meirihluta stjórnlagaráðs.

Goggunarröð handhafa ríkisvalds

Í ákvæðinu felst sem endranær markmiðssetning sem aðrir, reglulegir, handhafar ríkisvalds hljóta að þurfa – og mega – útfæra í þessari röð:

  1. Löggjafinn, Alþingi, útfærir markmið stjórnarskrárgjafans – svo og sama löggjafarþing sem  handhafi fjárstjórnarvaldsins (valdið til að ákveða skatta og í hvað þeir fara).
  2. Stjórnvöld – handhafar framkvæmdarvalds (ríkisstjórn, ráðherrar og stofnanir ríkisins) – framkvæma vilja stjórnarskrárgjafans og löggjafans.
  3. Dómstólar endurskoða ákvarðanir löggjafans og athafnir stjórnvalda ef og þegar mál eru réttilega borin undir þá.

Ég hafði ekki efasemdir um síðari málsgreinina en í henni felst að mínu mati

  • ágæt útfærsla á pólitískri samfélagssátt í áratugi hérlendis,
  • sjálfsögð innleiðing á alþjóðaskuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist
  • eðlileg uppfærsla á ákvæðum gömlu stjórnarskrárinnar um rétt lögum samkvæmt til „aðstoðar vegna sjúkleika“ sem var svolítið fornfálegt þótt síðast hefði verið uppfært 1995.

Þarf að útfæra og túlka

Fyrirvarinn úr gildandi stjórnarskrá um að þeir, „sem þess þurfa,“ eigi rétt á tiltekinni aðstoð – og þá að mati löggjafans (og handhafa fjárstjórnarvalds) – er í raun útfærður með sambærilegum hætti með orðunum um rétt til „aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu“ – sem einnig er matskennt og tilkemur ofangreindum handhöfum ríkisvalds að útfæra og skilgreina; þess vegna er aðgreining þeirra og sjálfstæði svo mikilvægt svo að þessi orð verði ekki merkingarlaus, fyrr eða síðar.

Stjórnarskrá getur sjaldan verið hárnákvæm og stjórnskipunarréttur útilokar yfirleitt enn síður en aðrar fræðigreinar lögfræðinnar mat eða sveigjanleika og þróun.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur