Sunnudagur 28.08.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Réttlát málsmeðferð (28. gr.)

Í 28. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er kveðið á um tvær af mikilvægustu reglum réttarríkisins – þ.e.

  • rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi og
  • regluna um að að menn teljist saklausir uns sekt er sönnuð – sem við höfum séð svo margar (bandarískar) bíómyndir um.

Í ákvæðinu segir:

Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól. Dómþing skal háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða hagsmuna málsaðila og vitna.

Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.

Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta – hið nákvæmlega sama, að því frátöldu að dómari getur ekki eins og nú er ákveðið lokað þinghald með vísan til „velsæmis.“ Í staðinn geta  hagsmunir „vitna“ heimilað lokun þinghalds eins og samkvæmt gildandi lögum en slíka áréttingu skortir í stjórnarskrá. Verði frumvarp stjórnlagaráðs að stjórnarskrá þarf í þessu tilviki sem mörgum öðrum vitaskuld að breyta ýmsum lögum til samræmis en heimildir gildandi laga virðast heldur rýmri en bæði frumvarpið og stjórnarskráin varðandi heimildir dómara til að loka þinghaldi.

Þess má geta að „allsherjarregla“ er einungis í þessari frumvarpsgrein heimild til skerðingar á mannréttindum – en annars staðar tekið úr frumvarpinu eins og nánar má lesa um í skýringum með frumvarpinu en það hugtak má finna á þremur stöðum í trúmála- og mannréttindaköflum gildandi stjórnarskrár.

Hér má lesa ítarlegri skýringar skrifstofu stjórnlagaráðs með stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs (sjá um þetta ákvæði á bls. 74-75).

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur