Í 30. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er kveðið á um tvær – væntanlega óumdeildar – meginreglur réttarríkja til viðbótar, þ.e. um
- að refsing verði ekki ákveðin nema með lögum (l. nulla poena sine lege) og
- að afturvirkar ákvarðanir um refsinæmi séu óheimilar:
Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum þegar hún átti sér stað, eða má fullkomlega jafna til þeirrar háttsemi. Viðurlög mega ekki verða þyngri en þá voru leyfð í lögum.
Sambærilegt og um skatta!
Sambærilega reglu er að finna bæði í gildandi stjórnarskrá og stjórnarskrárfrumvarpinu um skatta – þó að ólíku sé saman að jafna og ólík skilyrði gildi að öðru leyti um skattálagningu og um refsiákvarðanir.
Efnislega óbreytt
Í gildandi stjórnarskrá er að finna orðrétt sama ákvæði í fyrri málslið nema hvað orðunum „á þeim tíma þegar“ er breytt í „þegar“ auk þess sem orðalagi síðari málsliðar er breytt örlítið í nútímaátt – eða öllu heldur dregið úr þunglamalegu lagamáli og mannamál sett í staðinn enda er þetta ákvæði aðeins 16 ára gamalt í stjórnarskránni.
Fullkomin lögjöfnun er það nefnt sem heimilað er sem frávik frá reglunni um að refsiverð háttsemi sé tilgreind í lögum – þ.e. ef önnur háttsemi er nákvæmlega sambærileg, ef svo má segja.
Sögulega ekki án undantekninga
Um er að ræða rótgrónar, ríkar og óumdeildar meginreglur sem kenndar munu hafa verið í lagaskólum frá upphafi.
Engu að síður hafa reglurnar – sem óskráðar meginreglur – ekki verið undantekningarlausar. Þannig ákváðu t.d. bæði Danir og Norðmenn undantekningar frá meginreglunni um bann við afturvirkni afturvirkra refsinga er þeir settu eftir lok síðari heimsstyrjaldar afturvirk refsilög í kjölfar hersetu Þjóðverja 1940-1945 – m.a. um dauðarefsingu – vegna samstarfs við hersetuveldið og annars sem gekk gegn þjóðarhag; þar stóðu Norðmenn að mínu mati siðferðilega sterkar en Danir þar sem þeir börðust harðar og lengur gegn innrás Þjóðverja, fluttu ríkisstjórn og konung úr landi í stríðinu og unnu ekki með Þjóðverjum eins og danska ríkisstjórnin gerði lengst af – eða allt til 29. ágúst 1943 en það var um hálfu ári eftir að Þjóðverjar biðu afdrifaríkan ósigur við Stalingrad í febrúar 1943.
* Hér má lesa ítarlegri skýringar skrifstofu stjórnlagaráðs með stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs (sjá um þetta ákvæði á bls. 76).