Fimmtudagur 01.09.2011 - 11:59 - FB ummæli ()

Menningarverðmæti (32. gr.)

Í 32. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Dýrmætar þjóðareignir sem heyra til íslenskum menningararfi, svo sem þjóðminjar og fornhandrit, má hvorki eyðileggja né afhenda til varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veðsetja.

Þetta er nýmæli enda segir ekkert um þetta í gildandi stjórnarskrá – en hún er að stofni til frá 1874.

Ný handritadeila?

Ákvæðið er að margra mati mjög mikilvægt í ljósi sögunnar en var nokkuð umdeilt innan stjórnlagaráðs – eins og sjá má af umræðum á opnum fundum ráðsins og væntanlega af fundargerðum nefndar auk skýringa með frumvarpinu. Í ráðinu bar einkum á áhyggjum af að með slíku ákvæði yrði efnt til ófriðar við Dani vegna „eignarhalds“ á fornhandritum sem þeir afhentu okkur fyrir fjórum áratugum til vörslu eftir áratugabaráttu hérlendis og áralangar pólitískar og lögfræðilegar deilur í Danmörku.

Niðurstaðan varð þó þessi – í fullkominni sátt, 25:0, eins og um önnur ákvæði – að kveða á um að með dýrmætar þjóðareignir

sem heyra til íslenskum menningararfi

mætti ekki fara með eins og aðrar „eignir“, þ.e. hvorki

eyðileggja né afhenda til varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veðsetja.

Sem dæmi um slíkar þjóðareignir eru nefnd

þjóðminjar og fornhandrit,

Vandséð er að til deilna eða álitamála gagnvart Dönum komi vegna þessa enda er ljóst að orðalagið „þjóðareignir sem heyra til íslenskum menningararfi“ er einmitt skilyrt að þessu leyti og auk þess frekar menningarbundið en lögfræðilegt og á ekki að skapa þjóðréttardeilur.

Ljóst er af ákvæðinu að ekkert bannar lán á menningarverðmætum til annarra landa eins og algengt er að gert sé vegna sýninga eða rannsókna.

Svipað og um náttúruauðlindir

Hitt er annað að réttarreglan er áþekk þeirri sem sett er í 1. mgr. 34. gr. frumvarpsins um þjóðareign á náttúruauðlindum – sem hvorki má afhenda til eignar eða varanlegra afnota né veðsetja. Sá er munurinn á þeim og eiginlegum ríkiseignum að ríkiseignir má einmitt selja, veðsetja o.s.frv. eftir ákveðnum formreglum eins og síðar verður vikið að.

Hér má lesa ítarlegri skýringar skrifstofu stjórnlagaráðs með stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs (sjá um þetta ákvæði á bls. 77-78).

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur