Í 44. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:
Alþingi kemur saman eigi síðar en tveimur vikum eftir hverjar alþingiskosningar.
Í lögum skal kveðið á um samkomudag reglulegs Alþingis og skiptingu starfstíma þess í löggjafarþing.
Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta að reglulegt Alþingi skuli koma saman 1. október nema sá dagur sé helgidagur. Þar segir einnig að þingið standi „til jafnlengdar næsta árs“ nema kjörtímabil hafi áður runnið út eða þing verið rofið.
Alþingi fær sjálfræði um samkomudag…
Með tillögu okkar í stjórnlagaráði er því slakað á kröfunum um hvenær Alþingi skuli koma saman nákvæmlega – og þinginu treyst til að setja almennar reglur um það í lögum enda er ekki stjórnskipuleg hætta sjáanleg við það en sú er gjarnan ástæðan fyrir nákvæmari útfærslu í stjórnarskrá á því sem virðist tæknilegt.
… en þó ekki algert sjálfdæmi
Sá fyrirvari er þó settur að Alþingi skuli koma saman ekki síðar en tveimur vikum eftir kjördag; sá – tiltölulega rúmi – frestur er m.a. ákveðinn með hliðsjón af því að ráðrúm þarf að gefast fyrir landskjörstjórn og eftir atvikum dómstóla (væntanlega með flýtimeðferð) að úrskurða um gildi kosninga enda er sú regla, sem sagt, afnumin að Alþingi úrskurði sjálft um lögmæti kosningar til sjálfs sín.
Einnig er sú ástæða fyrir þessum hámarksfresti frá kjördegi til samkomudags þings að koma í veg fyrir að þingmeirihluti láti hjá líða að kalla þing saman; um þetta segir í skýringum skrifstofu stjórnlagaráðs með ákvæðinu:
Talið var óþarfi að skilgreina samkomudag reglulegs Alþingis nákvæmlega í stjórnarskrá sem og starfstíma, heldur væri nægjanlegt að það yrði gert í þingskapalögum. Þingið hefur sjálfdæmi í þeim efnum. Hins vegar var bent á að meirihluti þings gæti beitt minnihluta ofríki með breytingum á starfsfyrirkomulagi Alþingis. Eigi að síður var valin sú leið að mæla skuli nánar fyrir um starfstíma þingsins í lögum en þess í stað sett heimild í ákvæði [46. gr.] um þingsetningu að þriðjungur þingmanna gæti óskað eftir að þing yrði kallað saman og sett.
Alþingi falið að útfæra nánar í lögum
Í síðari málsgrein 44. gr. frumvarpsins er Alþingi svo falið að útfæra samkomudag „og skiptingu starfstíma þess í löggjafarþing“ í lögum og er það eitt af um 80 tilvikum þar sem Alþingi er falið eða heimilað að útfæra eitthvað nánar í lögum. Samkvæmt því er skylt að skipta kjörtímabilinu í löggjafarþing eins og raunar er raunin nú.
- Hér má lesa ítarlegri skýringar skrifstofu stjórnlagaráðs með stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs (sjá um þetta ákvæði á bls. 114-115).