Mánudagur 12.09.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Gildi kosninga (til Alþingis) (43. gr.)

Með 43. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er leitast við að koma í veg fyrir valdarán Alþingis – eða öllu heldur landskjörstjórnar, í samsæri við (fyrra) Alþingi!

Möguleiki á valdaráni landskjörstjórnar (og fráfarandi þings) að gildandi stjórnarskrá

Þetta er ekkert grín; á fyrsta námsári mínu í laganámi – þá í Kaupmannahafnarháskóla 1990-1991 (sem var lagaskóli Íslendinga til 1908) – var þetta ein minnisstæðasta ábending míns góða stundakennara í stjórnskipunarrétti, Per Hansen:

Ekki aðeins fræðilegur möguleiki

Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta:

Alþingi sker sjálft úr, hvort þingmenn þess séu löglega kosnir, svo og úr því, hvort þingmaður hafi misst kjörgengi.

Ákvæði felur í sér að úrlausnarefnið er skýrlega undanþegið lögsögu dómstóla – sem annars hafa úrlausnarvald um allan ágreining samkvæmt stjórnarskránni.  Í þvi felst að ný“kjörið“ þing gæti svo úrskurðað sér í hag – og staðfest úthlutun landskjörstjórnar á kjörbréfum sér til handa – ef upp kæmu kosningakærur, eins og gerðist t.a.m. 2007 eftir því sem fram kom í stjórnlagaráði. Því hefur verið haldið fram að Alþingi hafi þá úrskurðað á umdeilanlegan hátt vegna kosningakærumála sem hefðu breytt úrslitum alþingiskosninga. Breytingin er því ekki einungis af algerlega fræðilegum ástæðum – eins og halda mætti við fyrstu sýn.

Ákvæði 43. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins hljóðar svo:

Alþingi kýs landskjörstjórn til þess að úrskurða um gildi forsetakosningar, kosninga til Alþingis svo og þjóðaratkvæðagreiðslna.

Landskjörstjórn gefur út kjörbréf forseta og alþingismanna og úrskurðar hvort þingmaður hafi misst kjörgengi. Um störf landskjörstjórnar fer eftir nánari fyrirmælum í lögum.

Úrskurðum landskjörstjórnar má skjóta til dómstóla.

Í lagi að réttkjörið Alþingi úrskurði um missi kjörgengis einstakra þingmanna…

Niðurlagið tel ég ekki óeðlilegt – þ.e. að sitjandi og löglega kjörið (eftir úrlausn til þess bærra aðila eftir atvikum) Alþingi úrskurði hvort einstakir þingmenn hafi misst kjörgengi, sbr. efnisumfjöllun í síðasta pistli mínum og viðbót við hann í niðurlagi um það álitamál hver hafi úrskurðarvaldið í því efni.

… en ekki að Alþingi hafi sjálfdæmi um eigið kjör

Hitt gengur ekki að áður en óháður aðili hefur staðfest kjörið og leyst úr hugsanlegum ágreiningi um lögmæti kosningar úrskurði sá aðili sjálfur, Alþingi, um lögmæti eigin kjörs.

Ástæðan fyrir þessu fyrirkomulagi var á sínum tíma eðlileg að mínu mati, þ.e. þrígreining ríkisvaldsins, lýðræðisástæður og réttmætur ótti við að dómstólar – undir handarjaðri handhafa framkvæmdarvalds og fram til þess einvalda konungs – gætu með óeðlilegum hætti hlutast til um kjör handgenginna manna fremur en fulltrúa alþýðunnar sem áttu loks að komast til valda með dönsku stjórnarskránni frá 1849.

Traust á þrígreiningu ríkisvalds og sjálfstæði dómstóla

Þetta fyrirkomulag gengur ekki lengur enda er traust á þrígreiningu ríkisvalds mun meira nú og sjálfstæði dómstóla víðast hvar og í æ ríkari mæli yfir verulegan vafa hafið þótt undantekningar séu vitaskuld á því – hvað Ísland varðar, að mínum dómi.

Því leggur stjórnlagaráð til að landskjörstjórn úrskurði um kosningar til Alþingis – sem og aðrar kosningar, svo og þjóðaratkvæðagreiðslur – og að dómstólum (en ekki Alþingi í tilviki sjálfs sín) sé treyst til þess að endurmeta úrskurði landskjörstjórnar eins og allra annarra stjórnvalda.

Vonandi standa dómstólar undir því trausti.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur