Sunnudagur 11.09.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Kjörgengi (til Alþingis) (42. gr.)

Í 42. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Kjörgengur við kosningar til Alþingis er hver sá ríkisborgari sem kosningarétt á til þeirra og hefur óflekkað mannorð.

Hæstaréttardómarar eru þó ekki kjörgengir.

Glati alþingismaður kjörgengi missir hann þann rétt sem þingkosningin veitti honum. Varamaður tekur þá sæti hans á þingi.

Aðeins hæstaréttardómarar ókjörgengir

Um fyrri tvær málsgreinarnar er fyrst að segja að þær eru samhljóða gildandi stjórnarskrá.

Vafalaust er lítt umdeilt að hæstaréttardómarar skuli ekki kjörgengir til Alþingis; þeir þurfa því að segja af sér áður en þeir taka sæti á framboðslista eins og væntanlega er dæmi um frá 1971 er Gunnar Thoroddsen, fyrrverandi alþingismaður til áratuga og fyrrverandi ráðherra og fyrrverandi sendiherra, sagði af sér nýfengnu embætti hæstaréttardómara og var aftur kjörinn á þing – og varð svo síðar forsætisráðherra 1980. Héraðsdómari gæti hins vegar væntanlega boðið sig fram til Alþingis og látið nægja að láta af embætti yrði hann kjörinn – þótt deila mætti um hvort það þætti heppilegt.

Umdeildara kann að vera hvort fleiri embættismenn ættu að vera undanþegnir kjörgengi til Alþingis en lýðræðis- og jafnræðisástæður hafa væntanlega þótt standa því í vegi svo og sú langa saga áður fyrr að prestar, sýslumenn og fleiri embættismenn ríkisins voru meðal algengustu stétta á Alþingi.

Þó er væntanlega undirskilið að sitjandi forseti Íslands geti ekki boðið sig fram til Alþingis – eða hvað; er e.t.v. nóg að hann segi af sér embætti nái hann kjöri?

Engar efnisbreytingar

Fyrri málsliður 3. mgr. er sömuleiðis sama efnis og ákvæði í stjórnarskránni. Síðari málslið 3. mgr. er ekki að finna í stjórnarskrá og byggist sú sjálfsagða regla að varamaður taki sæti alþingismanns sem glatar kjörgengi – sem fylgt hefur verið í framkvæmd – væntanlega á

  • eðli máls,
  • rýmkandi skýringum á lögum og
  • venju.

Hvað þýðir óflekkað mannorð?

Athyglisvert er að hugtakið „óflekkað mannorð“ – sem er samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skilyrði þess að vera kjörgengur til Alþingis og að geta setið sem alþingismaður – er ekki skilgreint í lögum; í lögfræðiumfjöllun er hins vegar sammæli um að skýra það svo að í því felist eftirfarandi:*

Það að hafa ekki verið fundinn sekur um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti.

Hvað er „svívirðislegt að almenningsáliti“?

Það vekur svo aftur upp spurninguna hvað teljist „svívirðislegt að almenningsáliti.“ Ég get ekki svarað því í stuttu máli en sem dæmi má nefna þá myndi fjárdráttur í opinberu starfi, nauðgun og manndráp falla undir það en ekki minniháttar brot á umferðarlögum.

Uppreist æra

Hið flekkaða mannorð verður svo óflekkað að nýju með svonefndri uppreisn æru eða með því að fá uppreist æru; æra fæst uppreist eftir tiltekinn tíma og að tilteknum skilyrðum upfylltum – mismunandi eftir því hvert brotið var og og hverjar aðstæður hlutaðeigandi eru. Sem dæmi má nefna fékk fyrrverandi alþingismaður, sem sagt hafði af sér þingmennsku vegna ásakana um refsivert athæfi (sbr. 3. mgr. ákvæðsins), uppreist æru eftir afplánun refsidóms fyrir allnokkrum árum – að tillögu þáverandi dómsmálaráðherra sem handhafar forsetavalds féllust á; var hann í kjölfarið endurkjörinn til þings og situr á Alþingi.

[Hver sker úr kjörgengi?

Við lestur á næsta ákvæði, 43. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs, og samlestur þess við það ákvæði stjórnarskrár sem sú grein leysir af hólmi, virðist mér að láðst hafi að geta þess í frumvarpinu hver skeri úr ágreiningi um kjörgengi þingmannsefnis – sem væntanlega er þó landskjörstjórn og svo dómstólar eftir atvikum – en öllu heldur hver skeri úr um hvort sitjandi þingmaður hafi misst kjörgengi; eiga það að vera sömu aðilar eða Alþingi sjálft? Í gildandi stjórnarskrá er nefnilega kveðið á um að Alþingi skeri úr um eigið kjör – en því breytir 43. gr. – og um missi kjörgengis hjá sitjandi þingmanni; til greina kemur að svo verði áfram en úr þessu þarf væntanlega að bæta enda geta skýringar skrifstofu stjórnlagaráðs með stjórnarskrárfrumvarpinu hvorki bætt úr þeirri þögn stjórnlagaráðs né gera það.]**

* Hér úr Páll Sigurðsson (ritstj.): Lögfræðiorðabók með skýringum, Reykjavík, 2008, bls. 314.

** Viðbót 12. september 2011.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur