Í 49. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:
Ekki má setja alþingismann í gæsluvarðhald eða höfða sakamál á hendur honum án samþykkis þingsins nema hann sé staðinn að glæp.
Alþingismaður verður ekki krafinn reikningsskapar utan þings fyrir það sem hann hefur sagt í þinginu nema Alþingi leyfi.
Alþingismanni er heimilt að afsala sér friðhelgi.
Óbreytt efnislega
Ákvæðið er algerlega sama efnis og gildandi stjórnarskrá að öðru leyti en að þingmanni er nú heimilað í 3. mgr. – án þess að Alþingi allt veiti atbeina sinn til þess – að afsala sér þessari „friðhelgi.“
Um 1. mgr.
Um 1. mgr. er það að segja að aðeins þessar tvær ráðstafanir eru óheimilar gagnvart alþingismanni:
- ákæra í sakamáli
- gæsluvarðhald við rannsókn sakamáls.
Samkvæmt þessu er málshöfðun í einkamáli í fyrsta lagi vitaskuld heimil hverjum sem er gagnvart þingmönnum sem öðrum – enda er um að ræða vernd gegn hugsanlegu ofríki handhafa framkvæmdarvalds (áður konungsvalds) en ekki frávik frá jafnræði þegnanna; sögulegar ástæður eru fyrir þessu – sem kunna að hafa minna vægi eftir að sjálfstæði dómstóla og einkum handhafa ákæruvalds var aukið.
Það að vera „staðinn að“ glæp bera að skilja bókstaflega – t.d. maður sem gengur út úr bú með fullt af gripdeildargóssi, að öðrum ásjáandi.
Í öðru lagi eru aðrar rannsóknarráðstafanir í sakamálarannsókn en gæsluvarðhald ekki berum orðum bannaðar; að mínu mati er handtaka þingmanns samkvæmt þessu augljóslega heimil eftir almennum reglum. Á hinn bóginn hef ég haldið því fram að símhlerun gagnvart þingmönnum sé stjórnarskrárbrot samkvæmt rýmkandi túlkun á þessu ákvæði.
Hvað varðar hugtakið „glæp“ er það að segja að það er í lögfræði skilið sem meiriháttar ásetningsbrot gegn almennum hegningarlögum; sem dæmi má nefna rán eða morð. Á hinn bóginn væri ekki hægt að setja alþingismann í gæsluvarðhald vegna gruns um skattsvik.
Um 2. mgr.
Ákvæðið sem verndar alþingismenn fyrir því að standa reikningsskap „utan þings“ fyrir orð sín „í þinginu“ er rakið til þrískiptingar ríkisvaldsins; hugsunin er sú að dómstólar (eða andstæðingar þingmanna með aðstoð þeirra) eigi ekki að geta klekkt á þingmönnum vegna þess sem þeir segja á þjóðþinginu. Það tel ég raunar enn mjög mikilvægt.
Fyrir þessu liggja lýðræðis- og tjáningarfrelsisástæður sem vonandi þarf ekki að rekja frekar; ef þingmenn misnota þetta er ekkert vandamál að aflétta þinghelginni skv. 2. mgr. Þá tíðkaðist það lengi að þingmenn endurtækju ummæli sín „í þinginu“ „utan þings“ til að einkaaðilar gætu höfðað einkameiðyrðamál ef við ætti vegna þeirra ummæla.
Um 3. mgr.
Eina nýmælið frá okkur í stjórnlagaráði er að leyfa einstökum alþingismönnum að ákveða sjálfir – án atbeina alls þingsins – að þeir vilji verjast og taka slaginn, hvort sem er í sakamáli eða meiðyrðamáli. Þeir geta verið sannfærðir um „sakleysi“ sitt og viljað verja það fyrir dómi óháð afstöðu Alþingis og jafnvel handhafa ákæruvalds – í því skyni að hreinsa mannorð sitt.
Hættan er að vísu að pressan verði mikil á slíkt afsal að eigin ákvörðun en við treystum á réttarkerfið í því efni.
- Hér má lesa ítarlegri skýringar skrifstofu stjórnlagaráðs með stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs (sjá um þetta ákvæði á bls. 116-117).